Á gigtar- og almennri lyflækningadeild B7 á Landspítala Fossvogi hafa verið sameinaðar tvær öflugar dagdeildir. Með sameiningunni standa væntingar til þess að hraða meðferð og bata sjúklinga og draga úr þörf fyrir innlagnir á legudeild. Einnig er með sameiningunni svarað kalli um meðferð með stuttum fyrirvara og eftirliti vegna ífarandi rannsókna. Sjúklingum er gert kleift að dvelja heima og aðeins hluta úr degi eða dögum á sjúkrahúsi meðan á meðferð stendur.
Markmiðið með sameiningu deildanna er að reka eina öfluga dagdeild sem sinni margvíslegum hjúkrunar- og læknisfræðilegum verkefnum lyflækningasviðs. Deildin fæst við um 11 þúsund komur sjúklinga árlega og hefur undanfarin ár búið við 20 prósenta aukna aðsókn.
Viðmælendur í myndskeiði: Rósa Jónsdóttir hjúkrunarfræðingur og Gerður Beta Jóhannsdóttir deildarstjóri.
Eftir sameiningu býður deildin bæði sjúklingum og starfsfólki betri aðstæður og faglegra umhverfi.
Með sterkri teymisvinnu verður hægt að þjóna langveikum sjúklingum sem þurfa á reglubundinni meðferð að halda.
Dagdeildin veitir þjónustu við sjúklinga sem þurfa sjúkdóms síns vegna
• líftæknilyf eða önnur innrennslislyf
• blóð- og eða vökvagjafir
• að fara í ýmsar ífarandi rannsóknir
• flóknar uppvinnslur
• greiningarferli vegna lungnabreytinga
• greiningarferli vegna gruns um gigtarsjúkdóma
• ýmsa sérhæfða hjúkrunarþjónustu, ásamt ráðgjöf, eftirfylgni, fræðslu og stuðningi
Deildin er opin kl. 8:00-16:00 virka daga.
Tilvísanir á dagdeild B7:
• Tilvísanir í lyfjagjafir með líftæknilyfjum koma frá sérfræðingum í viðkomandi sérgrein að undangenginni leyfisveitingu lyfjanefndar.
• Tilvísanir til gigtlækna berast á eyðublaðinu tilvísun milli stofnana í Sögukerfi.
• Aðrar tilvísanir þurfa að berast í gegnum tilvísanakerfi Heilsugáttar (tilvísun á dagdeild B7). Valið er viðeigandi bókunarform eftir því sem óskað er eftir þjónustu deildarlæknis eða hjúkrunarfræðings.