Gyða Ásmundsdóttir viðskiptafræðingur hefur verið ráðin deildarstjóri reikningsskila og fjárstýringar á Landspítala. Ráðningin er frá desember 2018 til 5 ára.
Gyða lauk cand. oecon. prófi í viðskiptafræði af fjármálabraut Háskóla Íslands 1997 ásamt áföngum í opinberri stjórnsýslu og heilsuhagfræði. Hún hefur starfað við gerð reikningsskila og ársreikninga Landspítala í meira en 10 ár. Um tíma var hún deildarstjóri reikningsskila og tekjubókhalds á fjármálasviði eða þar til hún tók við starfi bókhaldsstjóra í kjölfar skipulagsbreytinga innan sviðsins. Gyða hefur góða þekkingu á lögum og reglum um reikningsskil, alþjóðlegum reikningsskilastöðlum og reynslu af opinberum fjármálum auk þess að þekkja vel til helstu tölvukerfa spítalans.