Kæra samstarfsfólk!
Í dag sat ég fjölmennt heilbrigðisþing, samráðsvettvang sem lengi hefur verið kallað eftir. Þingið sóttu fulltrúar sjúklinga, fagfélaga, stjórnsýslunnar og auðvitað fjöldi heilbrigðisstarfsfólks úr öllum stéttum. Kynnt voru drög að heilbrigðisstefnu og dagurinn fór í frjóar umræður um hana, athugasemdir og ábendingar. Það var mjög ánægjulegt að eiga þetta samtal og það er mín skoðun að þarna hafi verið nýr tónn sleginn í umræðunni um heilbrigðismál. Ráðherra lagði m.a. áherslu á mikilvægi samtalsins og þess að til sé virkur samráðsvettvangur eins og þessi sem við áttum í dag. Framundan er að vinna að markmiðinu um árangursríka, réttláta og hagkvæma þjónustu fyrir þá sem á henni þurfa að halda. Það er verkefni okkar á Landspítala og þar viljum við vera leiðandi afl í krafti sérþekkingar og hlutverks spítalans gagnvart landsmönnum öllum.
Framkvæmdir við meðferðarkjarnann við Hringbraut eru nú í fullum gangi og fara starfsmenn, sjúklingar og aðrir sem leið eiga um svæðið ekki varhluta af því. Ekki verður hjá einhverjum óþægindum komist en framkvæmdaaðilar leitast við að takmarka þau eftir því sem kostur er. Mikilvægt er að deildir í nágrenni framkvæmdanna séu vel upplýstar og sæki sér upplýsingar um framkvæmdir, tímasetningu sprenginga og komi þeim upplýsingum rækilega á framfæri við sjúklinga og aðstandendur þeirra. Upplýsingar má nálgast hér.
Enda þótt vetur hafi rétt svo heilsað okkur fer nú að líða að ýmsu sem tengist komandi jólahátíð og margt í þeim undirbúningi tengist hlýjum huga til Landspítala. Það er Kvenfélagið Hringurinn sem ríður á vaðið nú um helgina þegar hinn árlegi jólabasar verður haldinn á Grand hótel Reykjavík. Kvenfélagið Hringurinn, sem unnið hefur að líknar- og mannúðarmálum í 114 ár, er einn máttarstólpa í starfi Barnaspítalans og hið óeigingjarna starf sem þar er unnið verður seint þakkað. Framundan (8. nóvember) eru svo stórtónleikar til styrktar BUGL, enn og aftur fyrir tilstuðlan Lionsklúbbsins Fjörgyn í Grafarvogi. Kærar þakkir fyrir dyggan stuðning!
Góða helgi!
Páll Matthíasson