Fyrsta skóflustunga að nýjum meðferðarkjarna á Landspítala Hringbraut var tekin 13. október 2018. Athöfnin var við Vatnsmýrarveg, ofan Læknagarðs, neðan við gömlu Hringbrautina. Fylking embættis- og stjórnmálamanna og fólks sem tengist og tengst hefur heilbrigðismálum á ýmsan hátt tók skóflustunguna í sameiningu, þar á meðal Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.
Þungamiðjan í starfsemi Landspítala verður í meðferðarkjarnanum. Byggingin verður sex hæðir auk tveggja kjallarahæða. Á þessum átta hæðum verða meðal annars átta 24 rúma legudeildir, bráðamóttaka, skurðstofur, myndgreining, hjarta- ogæðaþræðingarstofur, gjörgæsla, vöknun, undirbúningsherbergi skurðaðgerða, apótek og dauðhreinsun. Aðstaða stoðdeilda verður einnig hin ágætasta og vel fyrir því séð að flutningur á vörum verði sem greiðastur. Í neðri kjallaragangi verður til dæmis kerfi til vöruflutninga og fjórða hæðin er að stærstum hluta fyrir tæknibúnað. Á efri kjallarahæðinni verður meðal annars rúmaþvottastöð og hjálpartækjalager.
Alls verða 24 gjörgæslurými í meðferðarkjarnanum og 16 skurðstofur. Á smitsjúkdómadeild verða 17 rúm og fullkomin aðstaða til einangrunar.
Corpus-hópurinn hannar meðferðarkjarnann og hefur notið stuðnings fjölmargra erlendra sérfræðinga með mikla reynslu í sambærilegum verkefnum. Starfsmenn spítalans hafa mikið lagt til lokahönnunarinnar. Stefnt er að því að lokið verði við þennan byggingaráfanga á 5 til 6 árum.
Þorkell Þorkelsson, ljósmyndari Landspítala, tók myndir við skóflustunguna.