Kæra samstarfsfólk!
Októbermánuður er ekki hálfnaður en óhætt er að segja að þetta sé einn sá viðburðaríkasti sem ég man eftir. Eins og vill vera á Landspítala þá skiptast á skin og skúrir og gjarnan bæði á sama tíma!
Á föstudaginn í síðustu viku var samningur um lokahönnun rannsóknarhúss Landspítala undirritaður (sjá einnig myndskeið). Byggingarleyfi fyrir meðferðarkjarna fékkst í vikunni og á laugardaginn verða meiri háttar tímamót í heilbrigðissögu landsins, þegar skóflustunga verður tekin að sjálfum meðferðarkjarnanum. Þetta gríðarmikla verkefni er svona vel á veg komið fyrir elju fjölmargra innan og utan spítalans og fyrir það ber að þakka.
Það voru íslenskar konur sem sáu til þess að Landspítali reis fyrir bráðum 90 árum og það er við hæfi að loks þegar þetta mikla verkefni fer virkilega af stað eru konur í forsvari ríkisvaldsins. Til hamingju við öll!
Samhliða þessum ánægjulegu tímamótum glímum við við verulega áskorun sem felst í skorti á fagfólki, einkum hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum. Í sumar varð þessi staða til þess að bráðastarfsemi hjartagáttar færðist tímabundið á bráðamóttökuna í Fossvogi. Reynslan af því samstarfi var góð enda afrakstur vandaðs undirbúnings og frábærs starfsfólk. Því miður liggur nú fyrir að ekki verður unnt að halda úti óbreyttri starfsemi hjartagáttar frá og með 1. desember og flyst sú starfsemi því aftur á bráðamóttökuna. Samhliða munum við efla hjartadeildina sjálfa (14EG) og sömuleiðis dagdeildarstarf á hjartagáttinni og ljóst er að framundan eru umtalsverðar breytingar á starfsemi bráðamóttökunnar. Verkefnið er vissulega áskorun, sérstaklega fyrir dýrmætan og eftirsóttan mannauð við hjúkrun en í því felast einnig tækifæri til að efla þjónustu við hjartasjúklinga sem og bráðamóttökuna.
Í síðustu viku var efnt til hátíðardagskrár í Háskóla Íslands í tilefni af því að nú eru liðin tvö ár frá því að samstarf Landspítala, Háskóla Íslands, Lyfjafræðingafélags Íslands, University College London (UCL) og Royal Pharmaceutical Society (RPC) um klínískt nám hófst hér á landi. Ekki þarf að fara mörgum orðum um mikilvægi klínískrar lyfjafræði fyrir Landspítala og það hefur verið ánægjulegt að fylgjast með uppbyggingu námsins sem að mestu leyti fer fram hér á landi. Lyfjafræðideild og Landspítali fylgja kennsluviðmiðum frá UCL og á næsta ári verða fyrstu klínísku lyfjafræðingarnir útskrifaðir úr prógramminu. Af þeim 11 lyfjafræðingum sem nú eru "faculty members" í RPC eru sex starfandi á Landspítala og ljóst að prógrammið hefur eflt lyfjafræði á Landspítala til muna og þar með öryggi sjúklinga.
Góða helgi!
Páll Matthíasson