Corpus3 fullhannar nýtt rannsóknarhús Landspítala við Hringbraut, samkvæmt samningi Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Grímur Már Jónasson forstjóri undirrituðu 5. október 2018. Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala, og Alma Möller landlæknir vottuðu undirritunina.
Í væntanlegu húsi sameinast öll rannsóknastarfsemi Landspítala á einum stað sem mun þar með gjörbreyta allri umgjörð fyrir rannsóknastarfsemi spítalans. Rannsóknarstarfsemi á Landspítala er nú í sextán húsum hér og þar í borginni með því óhagræði sem fylgir. Stór hluti þessarar starfsemi býr nú við ófullnægjandi húsakost. Rannsóknarstofurnar sinna klínískum greiningarrannsóknum, svo sem blóðrannsóknum, og ýmsum sérhæfðum rannsóknum fyrir spítalann, aðrar heilbrigðisstofnanir og læknastofur. Auk þess annast þær ýmsar rannsóknir á sviði lýðheilsu, smitvarna og blóðgjafafræði.
Í nýja rannsóknarhúsinu verða meinafræði, rannsóknarkjarni, klínísk lífefnafræði og blóðmeinafræði, frumuræktunarkjarni, frumumeðhöndlun, erfða- og sameindalæknisfræði, ónæmisfræði, rannsóknarstofa í gigtsjúkdómum og sýkla- og veirufræði. Blóðbankinn verður einnig þar.
Ofan á rannsóknarhúsinu verður 22 fermetra þyrlupallur sem tengist bráðamóttöku og fleiri deildum í meðferðarkjarna með brú.
Mikil samlegðaráhrif verða við Háskóla Íslands sem hyggst reisa hús fyrir heilbrigðisvísindasviðið við rannsóknarhúsið og verða húsin tengd.
Corpus3 samanstendur af fyrirtækjunum Basalt arkitektar, Hornsteinar arkitektar, Lota ehf og VSÓ ráðgjöf.
Kostnaðaráætlun verksins var 670.890.000 krónur og var tilboð Corpus3 477.286.560 krónur eða 71,1% af kostnaðaráætlun.