Persónuverndarhópur Landspítala hefur lagt grunn að nýrri skipan persónuverndarmála í samræmi við lög 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
Fyrr á þessu ári fékk hópurinn ábendingar frá Persónuvernd og formlega ráðgjöf frá lögmannsstofunni Landslögum, sem hefur sérhæft sig í ráðgjöf af þessu tagi fyrir fjölmörg fyrirtæki og stofnanir.
VINNSLUSKRÁ
Í framhaldinu setti hópurinn saman rafræna vinnsluskrá fyrir spítalann í heild. Um er að ræða skrá yfir vinnslustarfsemi spítalans sem tengist persónuupplýsingum, ýmist vegna klínískrar þjónustu, starfsmannahalds eða vísinda- og gæðastarfs. Vinnsluskráin er afrakstur fjölda funda og samtala við starfsfólk spítalans sem fram fóru fyrr á árinu. Í haust verður unnið áfram að áhættugreiningu og lagfæringum á vinnsluskránni til þess að tryggja að innihald hennar endurspegli allar helstu vinnslur persónuupplýsinga sem fram fara á hverjum tíma.
PERSÓNUVERNDARSTEFNA
Persónuverndarstefna hefur verið samin og birt á heimasíðunni, ásamt viðbótarupplýsingum um málaflokkinn. https://www.landspitali.is/um-landspitala/stefna-og-starfsaaetlun/personuverndarstefna-landspitala.
PERSONUVERND@LANDSPITALI.IS
Netfangið personuvernd@landspitali.is hefur verið stofnað, en þangað er ætlast til að öllum fyrirspurnum um málaflokkinn verði beint til að byrja með. Netfangið er einnig aðgengilegt á vef spítalans.
PERSÓNUVERNDARFULLTRÚI
Í fyrrgreindum lögum er kveðið á um ráðningu persónuverndarfulltrúa. Landspítali auglýsti eftir persónuverndarfulltrúa í sumarlok 2018 og talsverður fjöldi umsókna barst. Ráðningarferli stendur nú yfir og viðkomandi mun hefja störf um leið og kostur er.
Persónuverndarhópur Landspítala á mynd:
Frá vinstri til hægri eru Jóhann Bjarni Magnússon, Torfi Magnússon, Helga H. Bjarnadóttir, Ottó Magnússon, Helga Þórðardóttir og Guðný Elísabet Óladóttir. Á myndina vantar Ólaf Baldursson.