Kæra samstarfsfólk
Haustið hefur farið af stað af miklum þunga á Landspítala. Regluleg starfsemi kemst á fullt, nemar koma til starfsnáms og fólk snýr til baka úr sumarleyfum. Samhliða höfum við fundið að ástandið utan spítalans hefur sífellt meiri áhrif, þegar þjónusta utan hans bregst eða dregst og fólk sem lokið hefur meðferð hjá okkur fær ekki viðeigandi þjónustu. Þegar þetta er skrifað bíða 110 einstaklingar með færni- og heilsumat á Landspítala eftir hjúkrunarheimili og til viðbótar eru ríflega 20 á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi á vegum spítalans. Þá eru þeir ótaldir sem bíða annarra úrræða, s.s. endurhæfingar eða heimahjúkrunar til að geta snúið aftur heim. Á Landspítala reynum við að búa eins vel og kostur er að þessum einstaklingum en það er ljóst að bráðasjúkrahús hentar þessu fólki alls ekki. Samhliða þessu verður hefðbundin bráðastarfsemi sérstök áskorun, þegar erfiðlega gengur að koma sjúklingum inn á bráðadeildir af bráðamóttökunni, þar sem fyrsta mat og meðferð fer fram.
Af öllu þessu leiðir óþarfa töf á meðferð sjúklinga og á stundum þjónusta sem við erum ekki ánægð með. Tvisvar á síðustu dögum höfum við glímt við alvarlega innlagnakrísu og það er óvenjulegt á þessum árstíma. Sjálf höfum við verk að vinna við slípun ýmissra verkferla en það verður ekki of oft minnt á það að umönnun fólks sem lokið hefur læknisfræðilegri meðferð á sjúkrahúsi er á ábyrgð okkar allra í samfélaginu. Sú uppbygging sem heilbrigðisráðherra kynnti í vor er sérstaklega ánægjuleg. Engu að síður er ljóst að til skemmri tíma horfum við fram á erfiða tíma í þjónustu við þennan viðkvæma hóp og ljóst að engan tíma má missa.
Á Landspítala hefur undanfarin misseri verið starfandi þverfaglegur byltuvarnarhópur, en byltur sjúklinga eru algengustu atvik sjúklinga á sjúkrahúsum. Slík atvik geta leitt til alvarlegra áverka hjá sjúklingum og afar brýnt er að allir starfsmenn séu meðvitaðir um þætti sem geta komið í veg fyrir byltur. Nýlega var sérstök árveknisvika á Landspítala þar sem sjónum var beint að byltum og byltuvörnum en við þurfum stöðugt að hafa byltuvarnir í huga. Sjá myndband um byltuvarnir hér >>
Í næstu viku fá þeir starfsmenn sem verið hafa í starfi á Landspítala frá 1. júlí senda könnun um stefnu spítalans og stjórnendamat. Sambærileg könnun var gerð fyrir ári síðan og með henni viljum við kanna hvernig til hefur tekist við að innleiða stefnu spítalans og starfsáætlun. Samhliða geta starfsmenn metið sinn næsta stjórnanda með sérstöku stjórnendamati. Kannanir af þessu tagi eru okkur afskaplega mikilvægar, hvort sem þær snúa að okkur sem erum stjórnendur eða að því hvernig við öll stöndum saman í því að innleiða stefnu spítalans. Ég hvet ykkur eindregið til að svara könnuninni sem fyrst.
Góða helgi,
-Páll Matthíasson