Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir hefur verið ráðin forstöðumaður Rannsóknarstofu Landspítala og Háskóla Íslands í bráðafræðum.
Þórdís lauk BS prófi í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands 1997, MSc prófi frá hjúkrunarfræðideild 2006, doktorsprófi í klínískum vísindum frá Sahlgrenska Akademin í Gautaborg 2011 og 30 eininga diplómanámi í kennslufræði háskóla vorið 2015. Þórdís Katrín fékk 1. júlí 2018 framgang í stöðu dósents við hjúkrunarfræðideild HÍ eftir að hafa gegn stöðu lektors frá 2013. Hún hefur verið forstöðumaður fræðasviðs í bráðahjúkrun við Landspítala og Háskóla Íslands síðan 2016 og verkefnastjóri á Rannsóknastofu LSH og HÍ í bráðafræðum frá 2012. Áður en hún hóf doktorsnám starfaði hún sem hjúkrunarfræðingur á ýmsum deildum Landspítala og í Svíþjóð. Þórdís er formaður kennslunefndar heilbrigðisvísindasviðs og því verið fulltrúi sviðsins í kennslumálanefnd Háskóla Íslands frá 2017. Einnig situr Þórdís í námsnefnd hjúkrunarfræðideildar, fagráði HVS, í vísindaráði Landspítala, í fræðiritnefnd Tímarits hjúkrunarfræðinga, í stjórn Fagdeildar vísindarannsakenda í hjúkrun, í vísindaráði Evrópusamtaka bráðahjúkrunarfræðinga (EUSEN) og hefur auk þess stýrt fagráði í bráðahjúkrun og árlegri ráðstefnu flæðisviðs Landspítala, Bráðadeginum, frá 2013.
Rannsóknaráherslur Þórdísar eru þverfaglegar og liggja á sviði klínískrar faraldsfræði og þjónustu við bráð- og alvarlega veika sjúklinga, með áherslu á skilvirkt og öruggt flæði sjúklinga um bráðamóttöku. Rannsóknir hennar snúa að bráðveikum öldruðum og erlendum ferðamönnum, sjálfskaða og sjálfsvígum, faraldsfræði áverka, þar með talið heimilisofbeldis og áverkadauða barna auk tilfinningalegra viðbragða við greiningu og fyrstu meðferð alvarlegra sjúkdóma. Hún hefur leiðbeint fjölda nema að meistara- og BS-prófi í hjúkrunarfræði, læknisfræði og lýðheilsufræðum auk setu í þremur doktorsnefndum. Afrakstur rannsóknarverkefnanna hefur verið kynntur með tímaritsgreinum í erlendum fræðiritum, á innlendum og erlendum ráðstefnum auk þess að leiða til nýs verklags í bráðaþjónustu. Þórdís hefur birt 24 rannsóknagreinar í alþjóðlega viðurkennd tímarit.