Ingibjörg Sigurþórsdóttir hefur verið ráðin sérfræðingur í bráðahjúkrun á flæðisviði Landspítala.
Ingibjörg lauk BSc. prófi í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands árið 1989, diplóma í bráðahjúkrun 2005 og meistaranámi í hjúkrunarfræði frá sama skóla 2014. Hún hlaut sérfræðiviðurkenningu í bráðahjúkrun árið 2018. Ingibjörg hefur starfað við hjúkrun á Landspítala frá útskrift og var aðstoðardeildarstjóri á slysa- og bráðadeild Landspítala 2000-2010. Hún hefur komið að umbótaverkefnum í tengslum við störf sína á spítalanum, var til dæmis í starfshópi um bráðaþjónustu fyrir aldraða á Landspítala 2016-2018, stýrði teymi ráðgefandi hjúkrunarfræðings aldraðra (BÖR) á bráðamóttöku frá byrjun árs 2016 og hafði umsjón með innleiðingu á skimtækjum fyrir aldraða á bráðamóttökunni.
Ingibjörg hefur verið kennari í klínískri öldrunarhjúkrun við hjúkrunardeild Háskóla Íslands (HÍ) frá árinu 2016. Hún hefur kennt verklega hjúkrun í hjúkrun fullorðinna og í hjúkrun bráðveikra við hjúkrunarfræðideildina frá 2014. Hún kenndi læknanemum í læknadeild HÍ í verknámi á bráðamóttökunni á árunum 2005-2017.
Ingibjörg er þátttakandi í rannsóknarhópum um aldraða á bráðamóttöku og hefur sótt fjölda námskeiða og ráðstefna í tengslum við sitt sérsvið. Hún hefur verið í fagráði bráðahjúkrunar frá árinu 2014, í stjórn fagdeildar bráðahjúkrunarfræðinga 2005-2009 og verið félagi í Samtökum um sár og sárameðferð.