Jón Magnús Kristjánsson hefur verið ráðinn yfirlæknir bráðalækninga á Landspítala.
Jón Magnús lauk námi frá læknadeild Háskóla Íslands í júní 2000. Hann er með almennt lækningaleyfi hér á landi frá 2003 og frá Svíþjóð í maí 2005. Hann fékk sérfræðileyfi í bráðalækningum í júní 2007 og í Svíþjóð sama ár auk þess sem hann fékk sérfræðileyfi í almennum lyflækningum í Svíþjóð í nóvember 2007 og hér á landi í júlí 2009.
Jón Magnús var aðjúnkt við læknadeild Háskóla Íslands árin 2009-2010 og 2015-2016. Hann var formaður Félags bráðalækna 2009-2015 og í stjórn félagsins frá 2015-2016. Hann var settur yfirlæknir bráðamóttöku í febrúar 2014. Jón Magnús hefur birt greinar í ritrýndum fagtímaritum og bæði komið að og stýrt mörgum þróunar- og gæðaverkefnum á bráðamóttöku. Hann leysti af yfirlækni bráðaþjónustu utan sjúkrahúsa 2010-2011 og var settur yfirlæknir bráðalækninga Landspítala frá ágúst 2016 þar til hann tekur nú við starfi yfirlæknis til næstu fimm ára.