Kæra samstarfsfólk,
Haustið er komið og hér á höfuðborgarsvæðinu er slík endemis blíða að halda mætti að hásumar væri hér.
Í vikunni voru fjárlög ársins 2019 lögð fram. Það er margt jákvætt í frumvarpinu hvað Landspítala varðar. Auðvitað er sérstaklega ánægulegt að umtalsverðu fé er nú varið í langþráða uppbyggingu Landspítalaþorpsins við Hringbraut. Það er stórt og flókið verkefni, en við höfum náð góðum takti í það með stjórnvöldum. Þegar kemur að rekstrinum sjálfum er það okkur mikilvægt að sjá, að tekið er tillit til ábendinga okkar um raunvöxt starfseminnar, sem helst í hendur við lýðfræðilegar breytur. Viðhald húsnæðis og tækjakaup fá áfram verulegt fé, sem er afar mikilvægt. Þá er auknu fé varið í göngudeildarstarfsemi og síðast en ekki síst mönnun. Þar hefur skóinn kreppt verulega og einkar mikilvægt að horfa til þess. Við höfum reyndar þegar farið í ýmsar aðgerðir vegna þess vanda og það skýrir raunar meginhluta þess halla sem stofnunin er í, auk þess að svo háttar hjá um okkur -- eins og öðrum stórum opinberum stofnunum -- að við drögum enn hlass hrunsins. Við gerðum rækilega grein fyrir áhyggjum okkar þegar fimm ára ríkisfjármálaáætlun var lögð fram í vor og við sjáum fram á að næsta ár verði áskorun, þótt fjárlagafrumvarpið líti betur út en fimm ára áætlunin gaf fyrirheit um. Mikilvægt er einnig að muna að heildstæð nálgun á fjármögnun kerfisins og styrking þjónustuþátta utan spítalans, svo sem í heilsugæslu og öldrunarþjónustu, hefur jákvæð áhrif hjá okkur. Það fer ekki á milli mála að stjórnvöld hafa frá fjárlagaárinu 2013 verið að rétta af kúrsinn og sú vegferð heldur skýrt áfram á árinu 2019.
Í síðustu viku gerði ég að umtalsefni mikilvægi þess að hafa réttar upplýsingar á takteinum um heilbrigðisþjónustu, til að hægt sé að eiga upplýsta umræðu um hana. Nú í morgun birtust enn misvísandi upplýsingar í einum af fjölmiðlum landsins (Morgunblaðinu) um þá þjónustu sem Landspítali veitir. Til að halda því til haga, þá fara brjóstnámsaðgerðir og brjóstauppbygging (ekki bara sílikonaðgerðir) fram á Landspítala og byggir ákvörðun um tegund aðgerðar á læknisfræðilegu mati. Eftir þessari þjónustu er ekki biðlisti og hefur Landspítali að undanförnu byggt upp öflugt teymi sérfræðinga og sérhæfðs starfsfólks til að sinna þessum mikilvæga sjúklingahópi.
Á veturna eru að jafnaði um 1.800 nemar á ýmsum sviðum heilbrigðisvísinda við nám og störf hjá okkur. Það er mikilvægt að þessi hópur fái góða viðkynningu á spítalanum og deildir leggi sig fram við að taka vel á móti mögulegum framtíðarstarfskröftum. Við fylgjumst vandlega með því hvernig til tekst og þannig sendir til dæmis menntadeild rafræna könnun til hjúkrunar- og sjúkraliðanema eftir hvert klínískt námstímabil. Þá eru lagðar fyrir nokkrar spurningar sem meta ánægju nemenda með námstækifæri, aðstöðu á deildinni, ánægju með móttöku og fleira. Hjartadeild 14EG kemur einstaklega vel út í þessum könnunum, þrátt fyrir að taka á móti óvenjulega miklum fjölda nema ár hvert og segja nemendur til dæmis að deildin sé frábær námsdeild með fjölbreyttum námstækifærum og áhugasömu starfsfólki. Það var því ánægjustund þegar Sigríður Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar veitti í vikunni hjartadeild 14EG viðurkenningu fyrir framúrskarandi námsumhverfi fyrir hjúkrunar- og sjúkraliðanema. Til hamingju 14EG!
Nú komið að bólusetningum fyrir inflúensu. Á Landspítala er sérstaklega mikilvægt að starfsfólk bólusetji sig, enda umgöngumst við ónæmisbælda og viðkvæma einstaklinga, nánast sama hvar við störfum. Bólusetning starfsmanna er nú hafin og er starfsmönnum að kostnaðarlausu. Leitið upplýsinga um hvar og hvenær þið getið komist í bólusetningu á innri vefnum okkar og samskiptamiðlinum Workplace, en eins gerum við ráð fyrir að yfirmenn deilda stýri verkinu eftir því sem við verður komið. Hlutfall bólusettra hefur vaxið ár frá ári, en í haust vil ég að við gerum enn betur en áður. Sjúklingar okkar eiga rétt á því að vera einvörðungu sinnt af bólusettu starfsfólki þegar líða fer á haustið!
Góða helgi,
-Páll Matthíasson