Sveinbjörg Katrín Pálsdóttir og Ingólfur Hartvigsson eru nýir sjúkrahúsprestar á sálgæslu presta og djákna á Landspítala.
Sveinbjörg tekur við starfi sr. Kjartans Arnar Sigurbjörnssonar í 80% starfshlutfalli og mun starfa á Landakoti og Vífilsstöðum en ganga vaktir og þá þjóna öllum deildum eins og hlutverk vakthafandi er.
Sveinbjörg lauk embættisprófi í guðfræði frá Háskóla Íslands, lagði stund á framhaldsnám í sálgæslu í Þýsklandi og síðar meistaranám í opinberri stjórnsýslu við HÍ. Hún á fjölbreyttan starfsferil að baki en starfaði undanfarin fimm ár sem skrifstofustjóri Biskupsstofu.
Ingólfur Hartvigsson verður sjúkrahúsprestur næsta árið í fjarveru Vigfúsar Bjarna Albertssonar sem tók sér leyfi í eitt ár. Ingólfur er fæddur og uppalinn í Hafnarfirði. Hefur lært meðal annars guðfræði, kennslufræði og mannauðsstjórnun. Ingólfur hefur starfað síðastliðin tólf ár sem sóknarprestur Kirkjubæjarklaustursprestakalls og er í árs leyfi frá starfi.