Kæra samstarfsfólk!
Þá er sumri tekið að halla og hefðbundin starfsemi á Landspítala að hefjast. Eins og áður hefur sumarið verið annasamt en þó var það óvenjulegt. Annars vegar var mikill þungi í kjaradeilu ljósmæðra og verulega skert starfsemi hafði mikil áhrif á þjónustuna. Hins vegar var þjónustu við bráðveika hjartasjúklinga sinnt á bráðamóttöku í Fossvogi og jók það eðli máls samkvæmt mjög álag á starfsemina þar - og var það þó ærið fyrir.
Uppsagnir ljósmæðra hófust í byrjun júlí og höfðu strax veruleg áhrif. Þegar yfirvinnubann tók gildi þyngdist enn frekar róðurinn og staðan varð hratt grafalvarleg. Enn og aftur staðfestist það sem við öll vitum að kjaradeilur og heilbrigðsstarfsemi er eitruð blanda. Yfirvinnubanni var aflétt í kjölfar samnings, þar sem meðal annars aðkoma Landspítala hjálpaði til á síðustu metrunum. Það er sérkennileg staða í ljósi þess að spítalinn er ekki samningsaðili en auðvitað gerum við allt hvað við getum til að auðvelda lyktir alvarlegra deilna.
Það verður að segja að þrátt fyrir að staðan hafi verið alvarleg þá tókst með öflugu starfsfólki og góðu skipulagi að láta þjónustuna ganga með viðunandi hætti. Það gerðist ekki af sjálfu sér heldur mátti starfsfólk leggja nótt við dag, fórna samveru með fjölskyldu og fresta sumarleyfum. Skipulag þjónustunnar og gott samstarf við aðrar heilbrigðsstofnanir skipti sköpum. Við erum því miður orðin sjóuð í að skipuleggja spítalann í verkfallsham. Mig langar til að þakka ykkur öllum sem að skipulagi þjónustunnar komu, samstarfsaðilum en fyrst og síðast starfsfólkinu sem stóð vaktina. Ykkar framlag var ómetanlegt.
Á bráðamóttökunni áttum við annasamt sumar og uggur var í mörgum vegna flutnings bráðaþjónustu hjartagáttar á deildina. Hér er þó ánægjulegt frá að segja að vel tókst til og þjónustan gekk vel, framar vonum jafnvel. Þessi árangur byggði á afar vönduðum undirbúningi stjórnenda deildanna og góðri kynningu á þessu erfiða verkefni fyrir starfsfólki og almenningi. Náið samstarf og stöðumat tvisvar á dag auðveldaði framkvæmdina og samstillt átak allra skilaði árangri. Enn og aftur sannaði starfsfólk Landspítala hæfni sína, þjónustuvilja og útsjónarsemi í erfiðum aðstæðum. Þið eruð best.
Hafið það gott um helgina.
Páll Matthíasson