Meðferðarátak gegn lifrarbólgu C hefur skilað 72% lækkun á algengi sjúkdómsins meðal fólks sem sprautar sig með vímuefnum í æð og árangur meðal fanga er svipaður. Þessar niðurstöður voru kynntar á 35. vísindaþingi norrænna smitsjúkdómalækna og sýklafræðinga, NSCMID, í Hörpu 20. ágúst 2018 en átakið hófst í ársbyrjun 2016.Til þessa hafa um 700 manns verið meðhöndlaðir eða um 90% allra sem smitaðir eru hérlendis. Árangurinn er framar vonum á svo skömmum tíma.
Sigurður Ólafsson meltingar- og lifrarlæknir leiðir átakið en hann ásamt Valgerði Rúnarsdóttur yfirlækni á Sjúkrahúsinu Vogi og Magnúsi Gottfreðssyni, prófessor og sérfræðingi í smitsjúkdómum, fjölluðu um átakið á fundinum í Hörpu. Sigurður hvetur þá sem telja sig geta verið smitaða af lifrarbólgu C til að hafa samband við miðstöð meðferðarátaksins hafi þeir ekki gert það nú þegar.
Markmið átaksins er að útrýma lifrarbólgu C sem meiri háttar heilbrigðisvár en Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin stefnir að því að ná þessu takmarki á heimsvísu árið 2030. Miðað við árangurinn til þessa eru taldar líkur á því að Ísland gæti orðið fyrst landa til þess að ná takmarkinu allt að 10 árum fyrr. Mikilvægt þykir að ná sem fyrst til þeirra sem eru smitaðir og hafa ekki enn fengið meðferð. Einnig sé brýnt að ná til þeirra sem tilheyra áhættuhópum, til dæmis þeirra sem hafa sprautað sig með fíkniefnum og til karlmanna sem hafa haft mök við aðra karlmenn og að þeir fari sem allra fyrst í blóðrannsókn til að kanna hvort smit sé til staðar.
Meðferðarátak gegn lifrarbólgu C er samstarfsverkefni Landspítala og SÁÁ. Fyrirtækið Gilead leggur átakinu til veirulyf þar til í ársbyrjun 2019 en lyfjameðferð gegn þessum sjúkdómi er afar kostnaðarsöm.
Gjaldfrjáls sími meðferðarátaksins er 800 1111