Tómas Þór Ágústsson, sérfræðingur í lyf- og innkirtlalækningum, hefur verið ráðinn formaður framhaldsmenntunarráðs lækninga á Landspítala.
Framhaldsmenntunarráð lækninga (FMRL) starfar á vegum framkvæmdastjóra lækninga, skv. reglugerð 467/2015, og hefur umsjón og eftirlit með framhaldsnámi lækna á spítalanum. Það er einnig samstarfsvettvangur um þennan málaflokk en auk kennslustjóra mismunandi greina innan spítalans eiga sæti í ráðinu deildarforseti læknadeildar, fulltrúi framhaldsnáms í heimilislækningum og fulltrúi félags almennra lækna.
Tómas hefur starfað ötullega að framhaldsmenntunarmálum lækna undanfarin 5 ár og hefur umfangsmikla þekkingu og reynslu í málaflokknum á alþjóðavísu. Sem formaður framhaldsmenntunarráðs lækninga mun hann leiða starfsemi ráðsins og stýra fundum þess.