Viðar Magnússon læknir á bráðamóttöku Landspítala hefur verið heiðraður af NHS - Ensku heilbrigðisþjónustunni vegna afreks hans og samstarfsfélaga í Lundúnum árið 2011. Viðar var þá þyrlulæknir þar og tókst með brjóstholsaðgerð úti á götu naumlega að bjarga 5 ára stúlku sem hafði orðið fyrir byssukúlum. Viðar og Caroline Appleby bráðatæknir, samstarfskona hans, voru valin til að hljóta NHS-verðlaunin úr hundruðum tilnefninga í flokki bráðalækninga utan sjúkrahúsa.
Thusha Kamaleswaran var að leik inni í búð þegar hún var fyrir kúlum úr byssum glæpagengis. Viðar greip til skyndiaðgerðarinnar vegna þess að stúlkan var að kafna og hefði ekki lifað af flutning á sjúkrahúsið. Það tókst að bjarga lifi stúlkunnar en hún lamaðist hins vegar vegna áverka á hrygg.
„Það að við gátum bjargað henni á þessu örlagaríka kvöldi er ekki síst að þakka þeirri frábæru slysaþjónustu sem við unnum fyrir á þessum tíma. Sérhæft teymi læknis og bráðatæknis er gert út frá Royal London sjúkrahúsinu á vegum London’s Air Ambulance (sjúkraþyrlunnar) ýmist á þyrlu (að degi) eða bíl (að nóttu). Þannig er hægt að veita sérhæfða lífsbjargandi meðferð úti á götu sem oftast þyrfti að bíða þar til komið er á sjúkrahús. Sú bið getur reynst of löng og Thusha hefði ekki lifað það af þó tiltölulega stutt hafi verið á sjúkrahús. Þau inngrip sem við framkvæmdum þetta kvöld eru hluti af staðlaðri og vel þjálfaðri meðferð sem þetta teymi veitir og eiga þeir sem standa að sjúkraþyrlunni mikinn heiður skilinn fyrir það að hægt sé að bjóða upp á þjónustu sem þessa."
ITV News - Thusha Kameleswaran hittir bjargvættina
Frásögn Viðars og myndir í Fréttablaðinu
Viðar lýsti starfi sínu í þyrlubjörgunarsveitinni í Læknablaðinu árið 2012