Á Landspítala hefur verið gefið út fræðsluefnið „Örugg dvöl á sjúkrahúsi“.
Markmiðið er að bjóða upp á stutt og aðgengilegt fræðsluefni fyrir sjúklinga á sjúkrahúsum sem auðveldar þeim að taka virkan þátt í eigin meðferð. Fræðsluefnið var hannað af „Guy's and St. Thomas' NHS Foundation Trust í Bretlandi“ og er fyrirmyndin öryggisspjöld í flugvélum sem sýna hvað flugfarþegar eiga að gera til að tryggja öryggi sitt ef eitthvað kemur upp á.
Um er að ræða bækling og veggspjald. Sjúklingum eru gefin átta einföld ráð sem geta aukið öryggi þeirra í flóknu sjúkrahúsumhverfi. Ráðin eru til að fyrirbyggja byltur, blóðtappa, sýkingar, rangar lyfjagjafir og þrýstingssár. Einnig er lögð áhersla á mikilvægi réttra persónuupplýsinga, farsæla útskrift og hvatningu til sjúklinga um að tjá áhyggjur sínar og vangaveltur varðandi heilsufar sitt. Fræðsluefnið hefur farið sigurför um heiminn, hefur t.d. verið gefið út í Ástralíu og Nýja Sjálandi svo dæmi séu nefnd.
Verkefnið fékk gæðastyrk velferðarráðuneytisins í apríl 2018.
Leit
Loka