Gunnar Mýrdal Einarsson hefur verið settur yfirlæknir hjarta- og brjóstholsskurðlækninga á Landspítala frá 1. maí 2018, í stað Bjarna Torfasonar.
Bjarni, sem hefur verið farsæll yfirlæknir sérgreinarinnar í nær tvo áratugi, hefur nú óskað eftir því að stíga til hliðar sem stjórnandi hennar. Samhliða því hyggst hann draga úr vinnuframlagi jafnt og þétt og byrja að taka út uppsafnaðan frítökurétt fram að áætluðum starfslokum. Bjarni mun þó áfram sinna sérhæfðum klínískum verkefnum auk þess að kenna við læknadeild Háskóla Íslands þar sem hann er dósent og forstöðumaður fræðigreinarinnar.
Gunnar Mýrdal Einarsson lauk kandídatsprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands 1991, fékk sérfræðiviðurkenningu í almennum skurðlækningum 1998 og brjóstholsskurðlækningum 2000. Gunnar lauk doktorsprófi frá Háskólasjúkrahúsinu í Uppsölum 2003 og MBA námi frá Háskólanum í Reykjavík 2016. Hann starfaði sem sérfræðilæknir og síðar yfirlæknir í Uppsölum en hefur frá árinu 2009 starfað við Landspítala. Staða yfirlæknis verður auglýst síðar eins og lög gera ráð fyrir.