Kæra samstarfsfólk!
Vísindi á vordögum fóru á dögunum fram í Hringsal. Þessi uppskeruhátíð vísinda á spítalanum tókst sérlega vel. Vísindasjóðsstyrkir námu 73 milljónum króna að þessu sinni, til rúmlega 90 verkefna. Rétt er að árétta að þótt við vildum að það styrkfé sem við höfum væri miklu hærra er þetta samt með stærstu vísindastyrktarsjóðum landsins. Að auki veitti Minningagjafasjóður Landspítala Íslands tvo styrki, til Brynju Ingadóttur hjúkrunarfræðings og Einars Stefánssonar augnlæknis. Ungir vísindamenn ársins á Landspítala voru fjórir talsins; Ása Bryndís Guðmundsdóttir lyfjafræðinemi, Bára Dís Benediktsdóttir læknir, Elva Rut Sigurðardóttir læknanemi og Ólafur Pálsson læknir. Síðast en ekki síst var Runólfur Pálsson nýrnalæknir valinn heiðursvísindamaður ársins á Landspítala. Þessu frábæra vísindafólki sem og styrkþegum öllum óska ég innilega til hamingju og góðs áframhaldandi gengis við vísindarannsóknir.
Nú rétt áðan var ég að koma af umbótaráðstefnu Landspítala 2018. Frábær erindi ráku hvert annað þar sem fulltrúar öflugra umbótateyma kynntu afrakstur vinnu sinnar. Jón Magnús Kristjánsson kynnti mjög árangursríkt verkefni um styttingu meðferðartíma fyrir sjúklinga í bráðamóttöku og Elínóra Friðriksdóttir kynnti umbótaverkefni um hjúkrunargöngudeild í brjóstholsskurðlækningum, Hrönn Stefánsdóttir lýsti góðri reynslu af 3ja daga umbótavinnustofu á neyðarmóttöku og eru þá aðeins nokkur verkefni talin sem til kynningar voru. Það er afar jákvætt og mikilvægt að skynja þann kraft sem er í okkar umbóta- og öryggisvegferð og það hvernig við verðum sífellt öruggari í að beita straumlínustjórnun sem verkfæri á þeirri vegferð.
Á morgun er alþjóðadagur ljósmæðra. Á sama tíma og við á Landspítala samfögnum ljósmæðrum þá er það staðreynd að dagurinn er haldinn í skugga þeirrar kjaradeilu ljósmæðra og ríkisins sem enn er óleyst. Spítalinn er ekki aðili að deilunni en það er sannarlega okkar hlutverk að tryggja öryggi sjúklinga og það gerum við. Við treystum því að aðilar máls leggi sig alla fram um að ná sáttum sem fyrst.
Góða helgi!
Páll Matthíasson