Sveinn Geir Einarsson hefur verið ráðinn í stöðu yfirlæknis á kvennasviði svæfinga- og gjörgæslulækninga á Landspítala Hringbraut frá 1. maí 2018 til næstu fimm ára.
Sveinn Geir lauk læknaprófi frá Háskóla Íslands 1985. Hann nam svæfingar og gjörgæslulækningar við Sahlgrenska Háskólasjúkrahúsið í Gautaborg þar sem hann vann frá árinu 1988 til 1998. Hann fékk sérfræðileyfi í svæfinga- og gjörgæslulækningum í Svíþjóð 1991 og á Íslandi 1994. Hann lauk doktorsprófi frá Gautaborgarháskóla 1997. Vegna áhuga á verkjum af völdum streitu og álags lauk Sveinn Geir námi í svæðameðferð og nuddi frá Nuddskóla Íslands árið 2009. Sveinn Geir vann sem sérfræðingur í Gautaborg árin 1991-1998, sem sérfræðingur við svæfingadeild Landspítala Fossvogi 1998 til 1999 og sem yfirlæknir svæfingadeildar St Jósefsspítala Hafnarfirði frá 1999 þar til honum var lokað 2010. Frá 2010 hefur hann verið starfandi sérfræðilæknir á Landspítala Hringbraut, fyrstu árin í 80% stöðuhlutfalli en frá 2015 í 100% stöðu. Síðastliðin tvö ár hefur Sveinn Geir haft forystu um breytingar og þróun á innskriftaferli sjúklinga á Landspítala fyrir aðgerðir.
Sveinn Geir vann mikið á kvennadeild Sahlgrenska sjúkrahússins á sínum tíma og hefur leyst af sem yfirlæknir á kvennasviði svæfinga- og gjörgæslulækninga Landspítala með reglubundnum hætti undanfarin ár.
Sveinn Geir er kvæntur Guðlaugu Björnsdóttur ljósmóður og hjúkrunarfræðingi sem starfaði sem ljósmóðir við fæðingagang Landspítala frá árinu 1981 til 1988 og aftur frá árinu 1998 til ársins 2000 að hún hóf störf við fósturgreiningadeild spítalans þar sem hún hefur starfað síðan. Þau eiga saman tvo stráka fædda 1987 og 1992.