Kæra samstarfsfólk!
Þetta var sannarlega vika mikilla og mikilvægra tíðinda á Landspítala.
Annars vegar urðu þau ánægjulegu tímamót að auglýst var útboð jarðvegsframkvæmda vegna meðferðarkjarnans. Meðferðarkjarninn verður hjartað í starfsemi spítalans og þar mun meginstarfsemi hans fara fram. Við sameinum bráðastarfsemina sem nú fer fram í Fossvogi og við Hringbraut á einn stað og verður það afar langþráður áfangi. Í raun munu ný og breytt húsakynni umbylta starfseminni hjá okkur og enda þótt byggingarnar verði ekki teknar í notkun fyrr en eftir um sex ár erum við þegar farin að undirbúa þá ferla sem við vinnum eftir og miðar allt okkar umbótastarf að þessu marki.
Hins vegar verður varla lögð nægilega mikil áhersla á mikilvægi þeirrar uppbyggingar hjúkrunarheimila sem framundan er og heilbrigðisráðherra kynnti í upphafi þverfaglegrar 3P nýsköpunarstofu í Höfða síðastliðinn miðvikudag. Hér er trúlega um að ræða metnaðarfyllstu uppbyggingu síðustu áratuga í þjónustu við hruma aldraða. Áætlunin gerir ráð fyrir 550 rýmum auk þess sem aðbúnaður við 240 rými sem þegar eru til staðar verður bættur og færður til nútímahorfs. Þessu ber að fagna rækilega og það hefur verið ánægjulegt að þessi tíðindi skyldu koma inn á nýsköpunarvinnustofuna sem unnin var í samvinnu Landspítala, velferðarráðuneytisins, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðsins, sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, Landsambands eldri borgara, Alzheimersamtakanna og fleiri haghafa. Nýsköpunarvinnustofan leiddi saman fjölda fólks sem í sameiningu vann fjórar frábærar hugmyndir að nýrri þjónustu eða samhæfingu þjónustu sem kynntar voru. Þegar svo vel hefur tekist til er um að gera að hamra járnið meðan það er heitt og mikilvægt að nýta hugmyndir og orku þessarar þriggja daga vinnustofu til að koma á fót samráðsvettvangi um öldrunarmál.
Í byrjun vikunnar hættu ljósmæður sem sinnt hafa heimaþjónustu við sængurkonur og nýbura þeirri þjónustu í kjölfar þess að samningur þeirra við Sjúkratryggingar Íslands er runninn út og ekki hefur samist að nýju. Ég get ekki lagt nægilega þunga áherslu á að samningar náist hið allra fyrsta. Þjónusta ljósmæðra við fjölskyldur í heimahúsum er afar mikilvægur þáttur í viðkvæmri þjónustukeðju sem nú hefur verið rofin. Við höfum við þessar aðstæður hafið samstarf við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðsins um breytta en skerta þjónustu við þennan hóp. Það er ekki ásættanlegt, hvorki til lengri né skemmri tíma. Semjið!
Góða helgi!
Páll Matthíasson