Á Vísindum á vordögum 24. apríl 2018 fengu tveir vísindamenn styrk úr Minningargjafasjóði Landspítala Íslands. Hvor styrkur nam einni og hálfri milljón króna. Vísindamennirnir eru dr. Brynja Ingadóttir vegna verkefnisins „Þróun og prófun á tölvukennsluleik til að búa börn fyrir svæfingu “ og dr. Einar Stefánsson vegna verkefnisins „Súrefnismettun sjónhimnuæða í ýmsum sjúkdómum.“ Sjóðurinn veitir 5 milljónir króna á þessu ári til vísindarannsókna í samræmi við tillögu vísindaráðs Landspítala.
Brynja Ingadóttir hjúkrunarfræðingur
Þróun og prófun á tölvukennsluleik til að undirbúa börn fyrir svæfingu. Verkefnið felur í sér hönnun og prófun á gagnvirkum kennslutölvuleik sem ætlað er að fræða börn á aldrinum 4-7 ára um hvað þau eiga í vændum þegar þau fara í svæfingu. Þrátt fyrir að rannsóknir sýni að kvíði og hræðsla barna fyrir svæfingu er algengt vandamál sem getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir börnin og truflandi áhrif á gang starfseminnar. Leikurinn er ævintýraferð með sögumanni sem lýkur í kastala þar sem finna má móttökuherbergi svæfingar og skurðstofu. Á leiðinni leysir barnið þrautir sem bæði hafa fræðslugildi og kenna því bjargráð til að minnka kvíða og hræðslu við það sem framundan er. Leikurinn verður þróaður og prófaður í þverfaglegu teymi íslenskra og finnskra heilbrigðisstarfsmanna, rannsakenda, leikjahönnuða og notenda. Nothæfni leiksins verður fyrst prófuð meðal barna utan sjúkrahúss en síðan verður gerð rannsókn þar sem nothæfni leiksins og fýsileiki þess að innleiða og nota hann sem hluta af undirbúningi barna fyrir svæfingu á t.d. Landspítala verður kannaður.
Samstarfsaðilar frá Landspítala:
Katrín Jónsdóttir, hjúkrunarfræðingur á Bráðamóttöku LSH og margmiðlunarfræðingur er hugmyndasmiður leiksins og verkefnisstjóri við þróun leiksins.
Karitas Gunnarsdóttir, hjúkrunarfræðingur (MSc) hefur starfað á Barnaspítalanum frá 1998 og vann meistaraverkefni sitt um áhrif fræðslu á kvíða barna fyrir skurðaðgerðir.
Anna Ólafía Sigurðardóttir, sérfræðingur í barnahjúkrun (PhD) og klíníkur dósent við HÍ. Hún hefur starfað lengst af á Barnaspítalanum og rannsóknir hennar hafa tengst m.a. fræðslu- og stuðningi til foreldra barna þar sem stuðst er við upplýsingatækni.
Berglind Brynjólfsdóttir, sérfræðingur í klínískri barnasálfræði (cand.psych). Hún hefur starfað lengst af á Landspítalanum á Barna-og unglingageðdeild og Barnaspítalanum og haldið fjölda námskeiða um kvíða barna og unglinga og leitt meðferðarúrræði fyrir börn og unglinga með kvíðaraskanir.
Berglind Þorbergsdóttir og Guðlín Katrín Jónsdóttir eru svæfingahjúkrunarfræðingar á LSH og starfa við svæfingar barna.
Samstarfsaðili í Finnlandi:
Prófessor Sanna Salantera (RN, PhD) og TEPE rannsóknarhópurinn, háskólanum í Turku Finnlandi búa yfir sérþekkingu í barnahjúkrun og hönnun heilbrigðistengdra kennsluleikja.
Einars Stefánsson læknir
Augun eru ekki bara gluggi sálarinnar, þau eru líka gluggi að líkamanum. Augað er eina líffærið þar sem æðakerfið og miðtaugakerfið eru sýnileg. Sjónhimna augans er hluti að miðtaugakerfinu og æðar sjónhimnunnar blasa við í augnskoðun, með „berum augum“.
Tækni sem þróuð hefur verið á Landspítalanum og við Háskóla Íslands notar sýnilegt ljós til að mæla súrefnisinnihald æða í sjónhimnu. Með þessu móti má meta efnaskipti sjónhimnu í ýmsum augnsjúkdómum, efnaskiptabreytingar í heilasjúkdómum og almennt súrefnisástand líkamans.
Það eru rétt 20 ár síðan dr. Einar Stefánsson, yfirlæknir augndeildar Landspítala, og dr. Jón Atli Benediktsson, núverandi rektor Háskóla Íslands, hófu þróun á mælitæki sem mælir súrefnismettun í augnbotnum manna. Snemma í ferlinu hlaut verkefnið nýsköpunarverðlaun forseta Íslands en áratugur leið áður en hægt var að nota tækjabúnaðinn almennt til mælinga í fólki.
Síðan þá hafa fjölmargar uppgötvanir verið gerðar með súrefnismælinum. Þar má nefna breytingar á súrefnisástandi sjónhimnu í sykursýki, gláku, æðastíflum og hrörnunarsjúkdómum. Súrefnismettun í sjónhimnu breytist einnig í Alzheimer sjúkdómi og MS og sýnir að sjónhimnan endurspeglar ástand miðtaugakerfisins. Þá má nema breytingar á súrefnisástandi líkamans vegna hjarta- og lungnasjúkdóma.
Rúmur tugur nemenda á Íslandi og fjöldi út um heim hefur lokið meistara- og doktorsnámi í verkefnum sem tengjast súrefnismælingum í augnbotni. Tæki sem þróuð og smíðuð eru á Íslandi hafa selst um allan heim og eru grundvöllur hratt vaxandi alþjóðlegs rannsóknastarfs á þessu sviði.
Úr ávarpi Hildar Harðardóttur læknis þegar hún afhenti styrkina.
Hildur er ritari stjórnar Minningargjafasjóðs Landspítala Íslands:
„Konur hafa frá upphafi átt stóran þátt í uppbyggingu spítalans okkar, Landspítala Íslands. Þegar konur á Íslandi hlutu kosningarétt og kjörgengi 1915 var haldinn fjölmennur fundur kvenna á Austurvelli til að fagna þessum réttindum. Þar hélt Ingibjörg H. Bjarnason, forstöðukona Kvennaskólans, ræðu og skýrði frá því að stofnun Landspítala væri það málefni sem konur myndu berjast fyrir. Þann 19. júní 1916 stóðu konur svo fyrir skemmtun til fjáröflunar og var þá gerð grein fyrir fjársöfnun til “Landspítalasjóðs Íslands” og lýst yfir stofnun sjóðsins. Frá upphafi tók Landspítalasjóði að berast fé til minningar um látið fólk og var því haldið aðgreindu í sérsjóði, Minningargjafasjóði Landspítala Íslands, sem var ætlað að styrkja fátæka sjúklinga til spítalavistar. Fyrsta skipulagsskrá hans var staðfest árið 1930.
Eftir stofnun almennra sjúkrasamlaga 1936 fengu félagar í þeim ókeypis sjúkrahússvist hér á landi og var þá styrkveitingum breytt og farið að veita styrki vegna fylgdarmanna sjúklinga sem þurftu að fara til útlanda í aðgerðir, oftast hjartaaðgerðir. Mjög margir sjúklingar hlutu þessa styrki, á annað hundrað á ári þegar mest var, en eftir að hjartaaðgerðir hófust hér á landi 1986 dró smám saman úr fjölda þeirra sem þörfnuðust sjúkrahússvistar erlendis og nú orðið berast sjóðnum sárafáar umsóknir. Því hefur stjórnin hugað að breytingum á starfsemi sjóðsins á undanförnum misserum og er eitt skref í þá átt sú styrkveiting sem ég gat um í upphafi og næstu skref koma svo í ljós síðar.“