Ungir vísindamenn Landspítala 2018 er fjórir talsins. Útnefning þeirra var kunngjörð 24. apríl á Vísindum á vordögum 2018, uppskeruhátíð vísindastarfs á Landspítala. Rannsóknir sínar kynna vísindamennirnir með neðangreindum hætti.
Ása Bryndís Guðmundsdóttir lyfjafræðinemi
Ég lauk meistarprófi frá lyfjafræðideild Háskóla Íslands árið 2011 og legg nú stund á doktorsnám í ónæmisfræði við læknadeild Háskóla Íslands undir leiðsögn Jónu Freysdóttur og Ingibjargar Harðardóttur. Doktorsverkefnið ber heitið „Utanfrumufjölsykrur blágrænþörunga úr Bláa Lóninu draga úr tjáningu angafrumna á SYK og CLEC7a“. Markmið verkefnisins er að upplýsa verkunarmáta Bláa lónins sem gæti skýrt þann bata sem sórasjúklingar hljóta við böðun í lóninu. Cyanobacterium aponinum er blágrænþörungurinn sem er ríkjandi í vistkerfi lónsins og seytir utanfrumufjölsykru í lónið. Ása Bryndís einangraði utanfrumufjölsykruna og kannaði áhrif hennar á angafrumur, T frumur og hyrnisfrumur í rækt. Niðurstöður verkefnisins gefa til kynna að fjölsykran hafi áhrif á allar lykilfrumurnar sem taka þátt í meingerð sóra og stuðli að bælingu þeirra. Þessari bælingu virðist vera miðlað í gegnum SYK boðleiðina. Auk þess virðist fjölsykran draga úr umritun á LL37 sem er einn af sjálfsofnæmisvökum í sóra. Þessar niðurstöður benda til að fjölsykrur í lóninu taki þátt í að miðla jákvæðum áhrifum böðunar í Bláa lóninu á húð sórasjúklinga. Samhiða rannsóknum sínum hefur Ása Bryndís leiðbeint íslenskum sem erlendum nemum sem koma á rannsóknastofuna í styttri verkefni.
Bára Dís Benediktsdóttir læknir
Skyndidauði hérlendis er nokkuð algengur og er áætlað að árlega látist milli 200 og 300 manns skyndilega. Skyndidauði er algengari hjá eldri einstaklingum og tengist þá gjarnan kransæðastíflu eða afleiðingum hennar. Hjá þeim sem eru yngri (<40 ára) eru aðrar orsakir fyrir skyndidauða. Er þá oft um að ræða arfgenga sjúkdóma sem geta leitt til raskana á raflífeðlisfræði hjartans eða hjartavöðasjúkdóms. Heilkenni lengingar á QT-bili er ein algengasta ástæða raflífeðilsfræðilegra raskana í hjarta hjá ungu fólki. Margar stökkbreytingar sem valda heilkenni lengingar á QT-bili eru þekktar. Oft eru einstaklingar sem bera stökkbreytingarnar einkennalausir þar til alvarlegar hjartsláttartruflanir eða jafnvel hjartastopp gera vart við sig. Í rannsóknum á heilkenni lengingar á QT-bili hefur tíðkast að leita eftir stökkbreytingum hjá einstaklingum sem hafa alvarlega svipgerð, þ.e. hafa fengið alvarlegar hjartsláttartruflanir eða eru með langt QT-bil á hjartalínuriti. Upplýsingar úr lífsýnasafni Íslenskrar erfðagreiningar sem og úr um 400.000 hjartalínuritum sem eru geymd rafrænt gera það á hinn bóginn mögulegt að finna alla þá einstaklinga sem að bera stökkbreytingar sem tengjast QT-bilinu og athuga hve algent vandamálið er og hversu alvarlega svipgerð þeir hafa. Í þessari rannsókn voru þeir erfðabreytileikar sem valda lengingu á QT-bili fundnir og metið að ríflega 1 af hverjum 300 Íslendingum eru arfberar. Þetta er mun hærri tíðni en áður var talið. Ítarleg svipgerðagreining á arfberum ásamt upplýsingum um skyndidauða sýnir að áhætta á alvarlegum einkennum er verulega breytileg eftir stökkbreytingum. Hingað til hafa allir sem greinst hafa með heilkenni lengingar á QT-bili hlotið sömu meðferð. Það er framtíðarsýn okkar að hægt verði að bjóða sérsniðna meðferð eftir því hvaða erfðabreytileiki er undirliggjandi ásamt því að grípa fyrr en ella ef áhætta á alvarlegum atburði telst mikil. Þetta var mikilvægt framlag til þróunar einstaklingsmiðarar læknisfræði en hérlendis erum við að mörgu leyti í kjörstöðu til að láta að okkur kveða á þeim vettvangi. Að rannsókninni standa Bára Dís Benediktsdóttir, sérnámslæknir á lyflækningasviði Landspítala, Davíð O. Arnar, yfirlæknir hjartalækninga á Landspítala, ásamt samstarfsfólki frá Íslenskri erfðagreiningu, Garðari Sveinbjörnssyni, Hilmu Hólm, Daníel Guðbjartssyni og Kára Stefánssyni.
Elva Rut Sigurðardóttir læknanemi
Rannsóknin Fósturköfnun á Íslandi var unnin á Landspítala undir handleiðslu Hildar Harðardóttur, fyrrverandi yfirlæknis á meðgöngu, fæðinga- og fósturgreiningardeildum kvennadeildar Landspítala, og Þórðar Þórkelssonar, yfirlæknis á vökudeild Barnaspítala Hringsins. Fósturköfnun er afleiðing þess að skerðing verður á flutningi súrefnis frá móður til fósturs um fylgju og getur hún haft í för með sér alvarlegar afleiðingar fyrir barn, bæði til lengri og skemmri tíma. Rannsóknin fólst í því að kanna nýgengi fósturköfnunar á Íslandi og hvernig það hefur breyst á undanförnum árum. Einnig að kanna áhættuþætti, orsakir og afleiðingar fósturköfnunar sem og hvernig staðið var að endurlífgun nýbura sem urðu fyrir fósturköfnun á rannsóknartímabilinu. Þórður átti hugmyndina að verkefninu og sá m.a. um að koma rannsókninni af stað. Hildur tók að sér það hlutverk að vera ábyrgðarmaður verkefnisins og átti mikinn þátt í rannsóknarvinnunni. Sjálf er ég læknanemi á fjórða ári við Háskóla Íslands. Áður en ég hóf nám mitt í læknisfræði starfaði ég á Landspítala á fósturgreiningardeildinni og áhættumæðraverndinni. Starf mitt á þeim deildum vakti sannarlega áhuga minn á kvenna- og barnasviðinu og því fannst mér tilvalið að þriðja árs verkefnið mitt væri tengt inn á þau svið.
Ólafur Pálsson læknir
Verkefnið okkar snýst um ákveðið vandamál sem er vel þekkt og algengt innan læknisfræði. Ný lyf og meðferðir eru prófaðar í slembiröðuðum rannsóknum á hópi fólks með mjög ströngum skilyrðum, svo sem engir aðrir sjúkdómar (co-morbidity) eða ekki nógu alvarleg sjúkdómseinkenni. Hins vegar er þorri sjúklinga í rauninni með marga aðra sjúkdóma eða aðrar sjúkdómsmyndir sem kemur í veg fyrir inntöku í klínískar meðferðarrannsóknir. Við tökum alla sjúklinga á Íslandi með sóragigt (e. psoriatic arthritis) sem eru að hefja meðferð með líftæknilyfjum (boDMARDs) og þeim hefur áður verið skipt niður eftir því hvort þeir uppfylli inntökuskilyrðin í slembiraðaðar lyfjarannsóknir viðkomandi lyfs. Einungis þriðjungur hópsins hefði uppfyllt þau skilyrði. Við könnum síðan svörun þeirra við lyfinu eftir 6 og 18 mánuði og kemur í ljós að meðferðarsvörunin er álíka góð sem og meðferðartíminn (e. drug survival).
Hópurinn okkar hefur tvo námslækna í sérnámi í almennum lyflækningum við Landspítala, þrjá lyfjafræðinga og tvo gigtlækna. Sjálfur er ég er á þriðja og síðasta árinu í almennum lyflækningum og verð í hópi þeirra fyrstu sem útskrifast eftir að nýtt sérnámsfyrirkomulag var tekið upp. Ég hygg á sérnám í gigtlækningum í Svíþjóð og vonast til að vera kominn þangað innan eins árs, enda hef ég þá lokið því sem boðið er upp á hér á landi. Ég hef að hluta til tekið þátt í uppbyggingu sérnámsins í starfi umsjónardeildarlæknis undanfarið ár. Ég vinn ásamt Birni Guðbjörnssyni prófessor og fleirum að öðrum verkefnum í ICEBIO og mun kynna þetta verkefni og annað verkefni með honum á tveimur þingum á þessu ári, þingi gigtarsamtaka Evrópu (EULAR) og þingi skandínavískra gigtlækna (SCR).