Þóra Þórsdóttir hefur verið ráðin sérfræðingur í krabbameinshjúkrun á Landspítala.
Þóra lauk meistaranámi í krabbameinshjúkrun árið 2012. Meistararitgerð hennar var megindleg rannsókn þar sem skoðuð var reynsla hjúkrunarfræðinga og lækna af því að ræða kynlíf og kynlífsheilbrigði við krabbameinssjúklinga. Í starfsnámi til sérfræðiviðurkenningar vann hún að því að móta eftirlit brjóstakrabbameinsgreindra eftir meðferð.
Sem sérfræðingur í hjúkrun sinnir Þóra starfi teymisstjóra í brjóstakrabbameinsteymi við dagdeild blóð- og krabbameinshjúkrunar 11B en þar hefur hún starfað frá árinu 2005. Þóra hefur unnið að ýmsum verkefnum tengdum þeim sem greinast með brjóstakrabbamein en einnig að verkefnum sem tengjast kynlífsheilbrigði krabbameinssjúklinga og sat m.a. í verkefnahópi um verkefnið Kynlíf og krabbamein sem var í gangi á árunum 2010-2012. Þóra tekur einnig þátt í ýmsum öðrum verkefnum s.s. ýmis konar gæðastarfi, innleiðingu nýrra starfshátta, skipulagningu námskeiða og fleiru.