Kæra samstarfsfólk!
Gleðilegt sumar og takk fyrir veturinn! Hann var viðburðaríkur og á köflum afar þungur undir fæti. Framundan er þó sumarið og ég vona að það verði okkur milt og gott.
Eins og flest ykkar vita stendur nú yfir vinna við gerð samskiptasáttmála Landspítala. Framkvæmdastjórar hafa stýrt fundum með hópi starfsmanna úr öllum stéttum og ég hef heyrt vel af þeim látið. Sjálfur stýrði ég einum slíkum fundi nú í vikunni þar sem um 30 starfsmenn komu saman. Það var góður andi á fundinum og mitt mat var að það væri góður skilningur á verkefninu og hvers vegna við höfum ráðist í þessa vinnu. Úrtak 1.500 starfsmanna var boðað á 50 fundi og nú liggur fyrir mikið efni sem nýtt verður við gerð samskiptasáttmálans. Við munum reka smiðshöggið á hann á fundi allra stjórnenda spítalans þann 8. mai og sáttmálinn verður svo kynntur 16. maí á ársfundi spítalans sem allir eru velkomnir á. Innleiðing sáttmálans hefst svo með ýmsum hætt á haustdögum. Ég bind miklar vonir við þetta verkefni sem þegar hefur vakið athygli út fyrir okkar veggi og ég þakka öllum kærlega fyrir sem tekið hafa þátt í fundunum.
Á vorin er stundum handagangur í öskjunni hérna hjá okkur þegar hundruð grunnskólanema koma til okkar og fá kynningu á starfsemi Landspítala. Að þessu sinni völdu hvorki fleiri né færri en 900 ungmenni á lokaári grunnskólans að koma í heimsókn til okkar. Það er nærri fjórðungur árgangsins og það var sérstaklega ánægjulegt að hitta krakka víða að af landinu, t.d. alla leið frá Vík í Mýrdal. Þetta er í meira lagi skemmtilegt - krakkarnir horfa á myndbönd um starfsemi spítalans og svo sitja fulltrúar nokkurra stétta fyrir svörum og óhætt að segja að spurningarnar láti ekki á sér standa. Sjá myndirnar á Facebook.
Síðasta vetrardag heimsóttu góðir gestir bráðageðdeild spítalans. Þar voru á ferð ættingjar Dýrleifar Kristjánsdóttur hjúkrunarfræðings og lögfræðings, sem lést árið 2012. Minningarsjóður Dýrleifar færði deildinni afar fallegar ljósmyndir eftir Ester Magnúsdóttur sem prýða munu deildina ásamt sérstökum hvíldarsófa sem hentar vel starfsemi deildarinnar. Ættingjar Dýrleifar lögðu áherslu á mikilvægi deildarinnar fyrir fólk sem þjáist af alvarlegum og bráðum geðröskunum og vildu með þessum fallegu gjöfum minnast Dýrleifar og styðja við mikilvægt starf deildarinnar. Þeim eru færðar hjartans þakkir fyrir.
Góða helgi!
Páll Matthíasson