Móttökustandur fyrir innskriftir barna sem koma á göngudeild barna 20E á Barnaspítala Hringsins var tekinn í notkun 11. apríl 2018.
Foreldrar sem mæta með barn í skoðun slá kennitölu þess inn í standinn og merkist barnið þá sjálfkrafa mætt í Sögu-kerfið hjá þeim sem það á bókaðan tíma hjá.
Uppsetning á Qmatic móttökukerfinu mun skila hagræðingu bæði fyrir móttökuritara og foreldra. Biðröð hjá móttökuriturum minnkar þar sem foreldrar geta skráð barnið inn þegar þeir mæta og þurfa ekki að leita fyrst til móttökuritara og lenda mögulega í biðröð.
Leiðbeiningar birtast síðan á móttökuskjánum um hvert viðkomandi á að fara, t.d. að setjast á biðstofuna eða inn á göngudeildargang.
Undantekning er að börn sem eru að koma í 5 daga skoðun eiga ekki að skrást inn á standinn heldur eiga foreldrar að gefa sig fram við móttökuritara.
Mynd: Krystian Sikora hjá Edico ehf, Ingileif Sigfúsdóttir, deildarstjóri bráðamóttöku barna, og Hulda Guðmundsdóttir verkfræðingur á heilbrigðis- og upplýsingatæknideild.