Umhyggja hefur fært Barnaspítala Hringsins að gjöf nýja samantektarsíðu fyrir langveika. Þetta er viðbót í Sögukerfið sem mun auka öryggi langveikra mikið. Samantektin speglast líka í Heilsugátt. Framkvæmdastjóri Umhyggju, Ragna Marinósdóttir, afhenti gjöfina í mars 2018.
Langveikir eru mjög oft í flókinni meðferð, daglegri jafnvel, og mikilvægt að heilbrigðisstarfsfólk sem annast hana hafi sem bestar upplýsingar. Sem dæmi má taka að einstaklingar með erfiða flogaveiki þurfa oft einstaklingssniðna meðferð þar sem að mörg lyf sem notuð eru í almennri meðferð eiga ekki við eða eru jafnvel skaðleg. Bráðamóttaka barna hefur leyst þetta með sérblaði fyrir þessa einstaklinga þar sem þeirra meðferð er lýst. Þessar upplýsingar eru þá ekki aðgengilegar annars staðar í heilbrigðiskerfinu sem getur leitt til mistaka í meðferð.
Þessi nýja síða, „Samantekt fyrir langveik börn“, hefur verið prófuð um nokkurt skeið og reynst mjög vel. Hún er aðgengileg öllum notendum Sögu og Heilsugáttar í heilbrigðiskerfinu. Mikilvægt er að kanna hvort sjúklingur á færslu undir þessum flipa (sjá myndir að neðan). Færslan er uppfærð af meðferðaraðilum og getur innihaldið mjög mikilvægar upplýsingar varðandi bráðameðferð. Þessi samantekt getur nýst öllum og auðvelt er að gera slíka fyrir sjúklinga. "Blað" sjúklings er búið til með því að opna flipann Saga efst til vinstri á skjánum (sjá mynd að neðan).