Frá ónæmisfræðideild Landspítala:
Á ónæmisfræðideild Landspítala eru sértæk IgE mótefni gegn jarðhnetum og undirpróteinum þeirra (Ara h 1, Ara h 2, Ara h 3, Ara h 6) mæld með s.k. ImmunoCAP® aðferð frá Thermo Fisher/Phadia. Rannsóknir sýna að Ara h 2-IgE hefur 70% jákvætt spágildi fyrir jarðhnetuofnæmi.
Ef Ara h 1, Ara h 2 og Ara h 3 eru öll jákvæð gefur það 97% jákvætt spágildi. Um helmingur einstaklinga sem mælast með IgE næmi fyrir jarðhnetum á Íslandi eru með jákvætt Ara h 2 undirprótein. Rannsókn hér á landi sýnir að Ara h 2 neikvæðir einstaklingar geta verið með klínískt ofnæmi vegna jákvæðni fyrir Ara h 1 og Ara h 3 eða Ara h 6. Ara h 6 hefur sambærilega klíníska þýðingu og Ara h 2 og finnst hér á landi en er mun sjaldgæfara (50% af Ara h 2 neikvæðum einstaklingum sem eru jákvæðir í þolprófi eru með jákvætt Ara h 6 (Magnúsdottir o. fl., í birtingu).
Í ljósi ofangreinds og með tilvísun í rannsóknir annarra (Sicherer and Sampson. JACI 2018;141:41-58, Santos et al. JACI 2017;5:237-48) mun ónæmisfræðideildin nota eftirfarandi verklag við mælingar á næmi fyrir jarðhnetum og undirpróteinum þeirra.
• Heildar IgE fyrir jarðhnetum mælist > 15 kUA/L: IgE fyrir undirpróteinum ekki mælt nema beðið sé sérstaklega um það.
• Heildar IgE fyrir jarðhnetum mælist 0,35 –15 kUA/L: IgE fyrir Ara h 1, Ara h 2 og Ara h 3 mælt.
• Ef IgE fyrir Ara h 1, Ara h 2 og Ara h 3 er neikvætt verður mælt IgE fyrir Ara h 6.
Til þess að við getum á einhverjum tímapunkti fundið okkar eigin íslensku viðmiðunargildi fyrir ofangreindum mælingum mælum við með að allir sem fara í jarðhnetuþolpróf hafi mælingu á IgE gildi gegn undirpróteinum jarðhneta. Ef umbeiðandi læknir óskar eftir öðru verklagi þarf hann vinsamlegast að hafa samband við lífeindafræðinga ónæmisfræðideildar í síma 543 5821.
Ef eitthvað er óljóst eða ef rannsóknarniðurstöður þarfnast nánari skýringa er bent á að hafa samband við sérfræðinga ónæmisfræðideildar.
Með kveðju,
Sigurveig Þ. Sigurðardóttir sérfræðilæknir
Björn Rúnar Lúðvíksson yfirlæknir
Anna Guðrún Viðarsdóttir, yfirlífeindafræðingur