Barnaspítali Hringsins fékk 16 nýja öndunarnema og tvö gegnumlýsingartæki að gjöf frá viðskiptavinum Arion banka sem afhent voru 22. mars 2018. Gjafirnar, sem eru að verðmæti á þriðju milljón króna, munu að sögn starfsfólks og stjórnenda spítalans nýtast afar vel. Öndunarnemarnir nýtast meðal annars við umönnun fyrirbura sem nálgast útskrift en einnig nýbura með sértæk vandamál og fyrirbura sem sækja sérhæft eftirlit til spítalans. Gegnumlýsingartæki eru einkum notuð við uppsetningu æðaleggja.
Forsagan er sú að fyrir um ári var sérstökum söfnunarbaukum komið fyrir í útibúum Arion banka um land allt. Markmiðið með baukunum var að gefa viðskiptavinum bankans kost á að losna við við smámynt, bæði innlenda og erlenda, úr vösunum en um leið að safna fjármunum til góðra málefna. Baukurinn Ari, einn af íbúum Sparilands, barnaþjónustu Arion banka, hefur haldið utan um söfnunina síðustu mánuði undir yfirskriftinni Ég gef til barna.
Þegar talið var úr baukunum kom í ljós að viðskiptavinir Arion banka höfðu gefið ríflega 2,6 milljónir króna til söfnunarinnar. Úr vöndu var að ráða þegar kom að því að velja hvernig fjármununum skyldi varið en niðurstaðan að þessu sinni var að gefa þá til Barnaspítala Hringsins þar sem hæfileikaríkt starfsfólk vinnur kraftaverk í þágu framtíðar barna landsins á hverjum degi.
Það var Aðalheiður Guðgeirsdóttir, svæðisstjóri Arion banka á Keflavíkurflugvelli, sem afhenti Rakel Björg Jónsdóttur, sérfræðingi í hjúkrun nýbura, styrkinn í húsakynnum Barnaspítala Hringsins. „Mörg okkar þekkja af eigin raun þau óeigingjörnu störf sem starfsfólk Barnaspítala Hringsins vinnur á hverjum einasta degi en öll vitum við hversu mikilvægur spítalinn er okkur og komandi kynslóðum. Það er mér því mikill heiður að fá að afhenda spítalanum þessa rausnarlegu gjöf frá viðskiptavinum Arion banka, “ segir Aðalheiður Guðgeirsdóttir.
Rakel Björg Jónsdóttir er sérfræðingur í hjúkrun nýbura: „Við þökkum viðskiptavinum Arion banka af heilum hug fyrir þessa myndarlegu gjöf og bankanum fyrir að hvetja til samfélagsþátttöku af þessum toga. Tækin sem um ræðir munu nýtast okkur mjög vel við að veita áfram þá nauðsynlegu umönnun sem okkur ber en tækin eru mikilvægur liður í eftirliti okkar með lífsmörkum fyrirbura síðustu daga og vikur fyrir heimferð sem og við uppsetningu æðaleggja hjá minnstu skjólstæðingum okkar. Þá eru öndunarnemarnir mikilvægur stuðningur við göngudeildarhluta þjónustu okkar en börn sem eru tilbúin til útskriftar að öllu leyti nema að þau hafa ekki þroska til að drekka að fullu geta farið heim til fjölskyldu sinnar tengd við öndunarnemann sem lætur vita ef truflun verður á öndunarmynstri barnsins.“
Myndir:
Aðalheiður Guðgeirsdóttir frá Arion banka, Rakel Björg Jónsdóttir og Jóhanna Guðbjörnsdóttir frá Landspítala
Einn af nýju öndunarnemunum