Kæra samstarfsfólk!
Landspítali er oft og iðulega í kastljósi umræðunnar, eðli máls samkvæmt. Á degi hverjum birtast 10-12 fréttir sem tengjast starfsemi spítalans. Undanfarið hefur mikið álag á spítalanum vakið athygli og ekki að ósekju en iðulega er þetta afar annasamur tími hjá okkur. Rekstur spítalans er sömuleiðis oft í deiglunni og ég hjó eftir þeim staðhæfingum í vikunni að vegna fyrirkomulags fjárveitinga til spítalans kjósi hann að draga úr starfsemi fremur en auka hana. Þetta er rangt. Þvert á móti höfum við aldrei tekið á móti fleiri sjúklingum, sem sífellt eru veikari, gert fleiri aðgerðir og veitt flóknari meðferðir og árangurinn okkar er svo sannarlega eftirtektarverður (tafla hér fyrir neðan). Landspítali hefur í raun aldrei verið öflugri enda starfar hér í framlínu hæfasta starfsfólkið við flókin störf. Enda þótt bæta megi rekstrarumhverfi spítalans verður ekki á móti því mælt að Landspítali spilar vel úr því fé sem til hans er veitt og hverri krónu sem til spítalans kemur er vel varið.
Við höfum ákveðið að flýta gerð samskiptasáttmála Landspítala. Honum er ætlað að skýra hvernig við viljum að samskiptum okkar í millum sé háttað hér á spítalanum og hvernig við viljum ekki að þau séu. Þetta kann að hljóma einfalt verkefni og fljótafgreitt enda ætti kurteisi og tillitssemi í samskipum að vera sjálfsögð. Niðurstöður örkönnunar um samskipti á spítalanum sem við gerðum í kjölfar #metoo byltingarinnar benda þó til þess að ýmislegt geti betur farið í samskiptum innan spítalans. Við höfum því hafið vinnuna og gerum ráð fyrir að þróun samskiptasáttmálans verði 3-4 mánaða verkefni sem allt starfsfólk er eindregið hvatt til að taka þátt í. Um er að ræða 50 funda syrpu sem framkvæmdastjórar spítalans munu leiða. Á fundunum verður meðal annars safnað saman sögum starfsfólks af atvikum og ábendingum um úrbætur haldið til haga. Í kjölfarið verður unnið úr efni fundanna með skipulögðum hætti og inntak sáttmálans mótað. Hér fáum við mikilvægt tækifæri til að hafa áhrif á starfsumhverfi okkar.
Starfsmenn Landspítala, smellið hér og skráið þátttöku!
Fundarboð verður sent í kjölfarið.
Ég vona að þessi vinna og nýr Samskiptasáttmáli Landspítala muni marka upphaf fyrirmyndar samskiptamenningar á spítalanum og hlakka til að vinna að þessu með ykkur!
Njótið ykkar um helgina, í starfi og leik!
Páll Matthíasson