Fundur hefur verið haldinn í stjórnskipaðri samstarfsnefnd um sóttvarnir um þá mengun sem mælst hefur í neysluvatninu á ýmsum stöðum höfuðborgarinnar.
Niðurstaða sýkingavarnadeildar Landspítala að fundi loknum er sú að umrædd mengun skapi ekki sérstaka áhættu fyrir skjólstæðinga Landspítala. Starfsfólk Landspítala getur því hætt núna að sjóða neysluvatn. Jafnframt er óhætt að nota vatnsvélar.
Niðurstaða fundarins var nánar tiltekið sú, að ofangreind mengun sé einangrað fyrirbæri í kjölfar mikilla vatnavaxta, sem leiddu til þess að gæði neysluvatns hefur nú í nokkra daga ekki staðist ýtrustu gæðakröfur. Niðurstöður mælinga á vatninu benda til að ekki er talin hætta á heilsufarslegum afleiðingum við neyslu þess á ofangreindum svæðum.
Samstarfsnefndin telur ekki þörf á að almenningur á svæðum þar sem mengunin hefur mælst sjóði vatn fyrir neyslu og ekki sé þörf á sérstökum varúðarráðstöfunum. Einnig er óhætt að nota neysluvatnið í matvæla- og drykkjarframleiðslu.
Fundinn sátu fulltrúar sóttvarnalæknis, heilbrigðiseftirlita Reykjavíkur, Kjósarsvæðis, Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis, sýkingavarna- og sýklafræðideildar Landspítala, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Matvælastofnunar, MATÍS, Veitna OHF og Geislavarna ríkisins.
FRÉTT FRÁ LANDLÆKNI: