Mælst hefur fjölgun jarðvegsgerla í kalda vatninu Í Reykjavík. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur mælir með því að neysluvatn í nær öllum hverfum borgarinnar sé soðið ef neytendur þess eru viðkvæmir, til dæmis með lélegt ónæmiskerfi, ungabörn, aldraðir eða fólk með undirliggjandi sjúkdóma.
Sýkingavarnadeild Landspítala beinir því til starfsfólks að sjóða allt neysluvatn fyrir jafnt sjúklinga sem starfsfólk þar til þessu neyðarástandi hefur verið aflétt. Einfaldasta leiðin er að nota hraðsuðukatla á öllum deildum, hella í vatnskönnur og kæla.
Sýkingavarnadeild er í nánu samstarfi við sóttvarnalækni hjá embætti landlæknis og heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur. Þess má geta að Landspítala var ekki tilkynnt um málið. Fregnir bárust stjórnendum spítalans eins og öðrum landsmönnum í fréttatíma RÚV um kvöldmatarleytið, 15. janúar. Áríðandi tilkynningum verður komið jafnt og þétt á framfæri gegnum vefsvæði og samfélagsmiðla í samræmi við framvindu málsins.
Sjá nánar fréttatilkynningu frá Veitum