Frá mannauðssviði:
Örkönnun um upplifun starfsmanna á óæskilegri hegðun var gerð dagana 7.-20. desember 2017 og liggja niðurstöður nú fyrir.
Í könnuninni var spurt um fjóra flokka óæskilegrar hegðunar sem fólk getur upplifað í starfi sínu og var spurt í hverju tilfelli hvort hegðunin hefði verið upplifuð á síðustu 12 mánuðum, og þá af hálfu sjúklings, aðstandanda, samstarfsmanns eða stjórnanda innan Landspítala.
Þegar á heildina er litið er ljóst að sem betur fer hefur meirihluti starfsmanna ekki upplifað neina af þeim tegundum óæskilegrar hegðunar sem spurt var um á síðustu 12 mánuðum.
Niðurlægjandi framkoma, hótanir eða ofbeldi eru algengasta form óæskilegrar hegðunar sem er upplifað og benda niðurstöður til þess að 1 af hverjum 5 starfsmönnum hafi orðið fyrir slíku af hálfu sjúklings á síðustu 12 mánuðum og 13% hafi orðið fyrir slíkri hegðun af hálfu samstarfsmanns.
Sex prósent svarenda segjast hafa orðið fyrir einelti af hálfu samstarfsmanns og 3% af hálfu stjórnanda.
Tæp 7% svarenda segjast hafa orðið fyrir kynbundinni áreitni af hálfu sjúklings og 3% af hálfu samstarfsmanns.
Kynferðisleg áreitni er oftast upplifuð af hálfu sjúklinga, eða af 4,7% svarenda, en tæp 2% segjast hafa upplifað kynferðislega áreitni af hálfu samstarfsmanns á síðustu 12 mánuðum.
Í könnuninni var einnig spurt um starfsánægju og mælist hún nú 4,1 sem bendir til jákvæðrar þróunar.
Loks var spurt um inntak samskiptasáttmála og var mjög áberandi að fólk kallar eftir samskiptum sem einkennast af virðingu.
Könnunin var send í tölvupósti til 1.000 starfsmanna Landspítala sem valdir voru af handahófi. Spurt var um upplifun fólks af tiltekinni hegðun samstarfsmanna og sjúklinga, ásamt spurningu um starfsánægju og opnum spurningum um samskiptasáttmála. Tveir svarendur verða dregnir út úr happdrættinu sem fylgdi könnuninni föstudaginn 5. janúar 2018 og fá þeir í verðlaun þakklætisvott frá Landspítala í formi gjafabréfs að andvirði 10 þúsund krónur hvor.
Eins og fram hefur komið í pistlum forstjóra þarf Landspítali eins og aðrir vinnustaðir að leitast við að uppræta hegðun sem þessa úr sínu umhverfi, og er það verkefnið sem bíður okkar allra.