Landspítali hefur verið settur á gult viðbragðsstig vegna alvarlegs rútuslyss sem varð í morgun, 27. desember 2017, skammt frá Kirkjubæjarklaustri.
Mikið álag er núna á bráðamóttöku Landspítala en þetta er jafnan einn af annasömustu dögum ársins þar. Af þeirri ástæðu vilja stjórnendur spítalans, að höfðu samráði við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, minna fólk á móttökur heilsugæslunnar sem og Læknavaktina.
Náið samstarf er við aðrar heilbrigðisstofnanir í landinu við aðstæður sem þessar. Á bráðamóttöku Landspítala er sjúklingum forgangsraðað eftir bráðleika og við þær aðstæður sem nú eru á spítalanum má gera ráð fyrir að þeir sem ekki eru í bráðri þörf þurfi að bíða þjónustu.
Fjöldi starfsfólks hefur verið kallaður til starfa vegna þessa atburðar, skurðstofur hafa verið opnaðar og fyrirhuguðum aðgerðum frestað. Þá er gert ráð fyrir auknum sjúklingafjölda á gjörgæsludeildum spítalans og mönnun aukin til samræmis við það.
Viðbragðsáætlun Landspítala pdf