Kæra samstarfsfólk!
Það líður að lokum ársins 2017 sem eins og önnur hefur verið viðburðaríkt hér á Landspítala. Ég hvet ykkur eindregið til að kynna ykkur nýjustu starfsemisupplýsingar spítalans en þar má glöggt greina skemmtilega sigra, eins og t.d. að við höfum náð markmiðum í hlutfalli spítalasýkinga en einnig að enn er aldeilis verk að vinna víða - t.d. hvað varðar vísindastarfsemi og fleira.
„Í húsi föður míns eru margar vistarverur“ segir í hinni helgu bók og það má nú segja að eigi við um Landspítala einnig. Á sama tíma og við glímum við mikla erfiðleika á einu sviði tökum við stór framfaraskref á öðrum. Þess vegna kann stundum að virðast að allt sé í kalda koli af fréttum að dæma en við sem hér störfum vitum að svo er ekki - raunveruleikinn er flóknari. Á árinu hefur álagið á spítalanum verið mjög mikið og rúmanýting á bráðalegudeildum með því allra hæsta sem þekkist. Við höfum áfram glímt við útskriftarvanda eldra fólks sem lokið hefur meðferð hjá okkur og skortur á hjúkrunarfræðingum er orðið alvarlegt vandamál víða. Þetta eru stærstu verkefni næstu missera hjá okkur sem við vinnum ekki með öðrum hætti en í samstarfi við stjórnvöld. Á sama tíma höfum við séð miklar framfarir á ýmsum sviðum hjá okkur, t.d. opnun öflugs hermiseturs og öflug vísindaverkefni eru í fullum gangi. Svona er lífið á Landspítala; erfitt, spennandi, krefjandi og skemmtilegt - allt á sama tíma.
Í gær var stysti sólardagur og nú hverfist allt smá saman að sólu. Framundan er hátíð ljóss og friðar og þó starfsemin hér á spítalanum taki á sig annan blæ yfir helgustu dagana þá er eðli starfseminnar þannig að við tökum alltaf á móti þeim sem þjónustuna þurfa, hvað sem dagatalið segir. Á spítalanum verða hundruð starfsmanna að störfum um hátíðar og flest okkar á Landspítala höfum einhvern tímann staðið vaktina þessa daga. Það reynir sannarlega á að geta ekki verið með sínum nánustu þessar stundir en mörg þekkjum við þá sérstöku helgi sem felst í því að sinna sjúkum helgustu stundirnar. Ég vil þakka ykkur sérstaklega sem þessar hátíðar standið vaktina og ekki síður fjölskyldum ykkar.
Innilegar jólakveðjur til ykkar allra!
Páll Matthíasson