Íslenska bútasaumsfélagið hefur fært konum sem greinst hafa með brjóstakrabbamein og þurfa að fara í aðgerð vegna þess hjartapúða að gjöf.
Árlega greinast rúmlega 200 íslenskar konur með brjóstakrabbamein. Flestar fara í aðgerð, stóra eða minni eftir atvikum. Eftir aðgerðirnar eru svæði í holhönd og víðar aum og getur verið erfitt að verja þau og finna þægilega stellingu.
Víða um heim eru hópar sem sauma svokallaða hjartapúða handa þeim sem hafa farið í brjóstnám eða uppskurð vegna brjóstakrabbameina. Þessir púðar eru hjartalaga en þó misjafnir að stærð og lögun og henta vel til að vernda viðkvæmt svæði eftir aðgerðir.
Félagar í Íslenska bútasaumsfélaginu ákváðu að sauma einn hjartapúða fyrir hverja konu sem greinist með brjóstakrabbamein og þarf að fara í aðgerð vegna þess. Fyrstu púðarnir voru afhentir hjúkrunarfræðingum á brjóstamóttöku Landspítala Hringbraut 30. nóvember 2017. Hjúkrunarfræðingar á brjóstamóttöku munu deila púðunum út.