Kæra samstarfsfólk!
Um leið og við fögnum fullveldisdeginum 1. desember er gaman að tiltaka fleiri gleðiefni sem ástæða er til að fagna á þessum hátíðisdegi. Nú í hádeginu voru afhentir styrkir til ungra vísindamanna og var það venju samkvæmt afskaplega ánægjuleg athöfn. Mikil gróska er í vísindastarfi á spítalanum og dugnaður ungra vísindamanna er okkur öllum gleðiefni.
Þá er gaman að segja frá því að stöðugt eykst bólusetningarhlutfall starfsmanna og það er ákaflega mikilvægt út frá sjónarhóli gæða- og öryggismála. Bólusetning við inflúensu verndar ekki aðeins starfsmanninn sjálfan heldur ekki síður og jafnvel fremur sjúklinga sem við sinnum í störfum okkar og eru sérstaklega berskjaldaðir fyrir alvarlegum afleiðingum influensu. Bólusetningarhlutfallið er nú 68% en nýlega fékk apótekið okkar sérstaka viðurkenningu fyrir frábæran árangur enda höfðu 93% starfsmanna bólusett sig.
Loks bindum við að sjálfsögðu vonir við það að ný ríkisstjórn verði okkur öllum til heilla. Ráðuneyti Katrínar Jakobsdóttur hefur nú tekið við stjórnartaumum í landinu og eins og margir rýndi ég stjórnarsáttmálann ítarlega þegar hann birtist. Það er mjög athylgisvert og ekki síður ánægjulegt að sjá að af einstökum málaflokkum hafa heilbrigðismálin raðast fremst í samstarfsyfirlýsingu hinnar nýju stjórnar. Þau markmið sem eru fram sett í plagginu hafa mörg beina skírskotun til okkar á Landspítala og má þar m.a. nefna markmið um að fullvinna heilbrigðisstefnu. Nú gefst tækifæri til að endurskoða hana, eins og við höfum bent á að nauðsynlegt sé. Þá er lagt upp með fjármögnun geðheilbrigðisstefnu sem ástæða er til að fagna. Við erum auðvitað sérstaklega ánægð með að áform um uppbyggingu Landspítala við Hringbraut verður fram haldið og ekki síður er sókn í uppbyggingu hjúkrunarheimila fagnaðarefni. Þá er áætluð sókn í menntamálum og algerlega nauðsynlegt er að sú uppbygging snúi meðal annars að eflingu náms heilbrigðisstétta sem manna munu heilbrigðisþjónustu framtíðarinnar.
Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra óskum við heilla í nýju starfi sem og öðrum kollegum hennar í ríkisstjórn og bindum vonir við traust og gott samstarf næstu árin.
Góða helgi öll sömul!
Páll Matthíasson