Kæra samstarfsfólk!
Í upphafi vikunnar hélt Norræna lífsiðfræðinefndin málþing um forgangsröðun í heilbrigðisþjónustu. Þetta er gríðarmikilvægt umræðuefni enda er bilið sífellt að breikka á milli þess sem hægt er að gera í heilbrigðisþjónustunni og þess sem peningar og mannskapur eru til að gera. Það er mikilvægt að líta til þriggja þátta í umræðu um forgangsröðun. Í fyrsta lagi þarf að líta til faglegra þátta. Ef ekki eru fagleg rök fyrir nýrri meðferð þá þarf ekki að skoða málið meira. Ef hins vegar fagleg rök hníga að því að taka upp verkefnið/lyfið/aðgerðina þá þarf næst að líta til kostnaðar. Það verður að vera hægt að fjármagna nýja hluti og meta ábatann af mismunandi verkefnum. Þriðji og flóknasti þátturinn og sá sem ekki hefur verið hugað nóg að er sá siðferðilegi. Hvaða „prinsipp“ eiga að liggja til grundvallar þegar gera þarf upp á milli mismunandi meðferða? Er hægt að setja verðmiða á heilsu og líf? Þarna fæst aldrei endanlegt svar en opin umræða, undir forystu stjórnmálanna, er jafn nauðsynleg og hún er erfið - til að hægt sé að taka yfirvegaðar, vel rökstuddar ákvarðanir um erfið álitamál í heilbrigðisþjónustunni.
________________________
Í dag fór fram aðalfundur Landsambands heilbrigðisstofnana hér í Reykjavík en í samtökunum eru allar opinberar og margar aðrar heilbrigðisstofnanir á landinu. Í kjölfar fundarins var haldið málþing um þjónustuviðmið í heilbrigðisþjónustu. Þar ræddu heilbrigðisstofnanirnar mikilvægi samstarfs og að grundvöllur samstarfsins er skýr hlutverkaskipti á milli stofnana. Mikil sátt er um þá sýn á samstarf sem kom fram á fundinum og verður spennandi að vinna áfram að þessu verkefni með öðrum heilbrigðisstofnunum og velferðarráðuneytinu. Skýr stefna fyrir heilbrigðisþjónustuna, vel samþætt hlutverk mismunandi þátta hennar og raunsætt mat á því hvernig heilbrigði þjóðarinnar muni þróast eru algerar forsendur þess að hægt sé að kalla til og nýta mannafla og fjármuni með sem bestum hætti næstu árin. Markmiðið er að þörf einstaklings fyrir þjónustu og sú þjónusta sem honum er boðin passi saman.
________________________
Álag hefur verið mikið á spítalanum í haust. Það er mat manna - og staðfest af starfsemistölum - að enn bæti í verkefnin. Fjölgun þjóðarinnar, fjölgun ferðamanna en sérstaklega sú ánægjulega staðreynd að þjóðin eldist, allt þetta leggst á eitt og gerir það að verkum að allar þær frábæru nýjungar í þjónustu og verklagi sem starfsfólk Landspítala beitir sér fyrir duga ekki til. Erfiðleikar við mönnun fagfólks gerir svo málið enn torveldara. Við bindum vonir við það að ný ríkisstjórn muni mæta þeim áhyggjum sem Landspítali hefur látið í ljósi um fjárlagafrumvarp næsta árs þannig að við getum mætt þeim vanda sem við okkur blasir þegar kemur að innviðum, rekstri og mönnun.
Góða helgi öll sömul!
Páll Matthíasson