Fæðingarþjónusta Landspítala (fæðingarvaktin, meðgöngu- og sængurlegudeildin og göngudeild mæðraverndar) tók 11. október 2017 í notkun rafrænt kerfi fyrir síritun fósturhjartsláttar á meðgöngu og í fæðingu.
Kerfið heitir Milou, er frá Medexa í Svíþjóð og komin góð reynsla á það.
Milou gerir kleift að fylgjast með fósturhjartsláttarritum á hvaða tölvu sem er en ekki eingöngu við sjálfan „mónitorinn“ eins og áður. Á fæðingarvaktinni, meðgöngu- og sængurlegudeildinni og göngudeild mæðraverndar eru nú skjáir á vaktherbergi sem sýna öll fósturhjartsláttarrit sem eru í gangi á deildinni. Þannig eru fleiri augu að fylgjast með. Í kerfið geta ljósmæður skráð mat á ritunum á kerfisbundinn hátt og einnig skráð rafrænt athugasemdir þegar það á við. Öll rit eru vistuð í kerfinu og þannig hægt að nálgast þau rafrænt hvenær sem er. Þetta mun einnig gefa mikla möguleika í þjálfun og kennslu starfsmanna og nema.
Með innleiðingu á Milou á mat á fósturhjartsláttarritum að verða markvissara og öryggið þannig meira. Öryggi gagna verður líka meira og aðgengi betra. Pappírsritin sem hafa verið notuð í áratugi verða ólæsileg á fáum árum árum vegna þess að prentunin dofnar með tímanum.
Með þessu nýja kerfi er skref stigið inn á tækniöldina, næsta skrefið er svo rafræn mæðraskrá sem fer brátt að líta dagsins ljós.
Viðmælendur í myndskeiðinu: Anna Sigríður Vernharðsdóttir, yfirljósmóðir á fæðingarvaktinni, og Hafdís Hanna Birgisdóttir, ljósmóðir á fæðingarvaktinni.