Meinafræðideild Landspítala er 100 ára 2017 og er elsta rannsóknarstofa landsins. Deildin hóf starfsemi árið 1917 þegar fyrsti menntaði íslenski meinafræðingurinn, Stefán Jónsson, kom til landsins eftir framhaldsmenntun í meinafræði og sýklafræði í Danmörku. Stofnuð var Rannsóknarstofa Háskólans sem tilheyrði Háskóla Íslands og varð síðar ein deilda Landspítala. Hún hélt nafninu Rannsóknarstofa Háskólans í meinafræði þar til 2004 en heitir nú meinafræðideild Landspítala.
Vefur meinafræðideildar
Húsakynni teiknuð af Guðjóni Samúelssyni
Stofnunin var fyrst til húsa í kjallara að Laufásvegi 25 en fluttist fljótlega í Kirkjustræti í hús við hlið Alþingishússins, nefnt Líkn. Árið 1934 fluttist rannsóknarstofan í núverandi húsnæði á Landspítalalóð á horni Barónsstígs og Eiríksgötu, hús sem teiknað er af Guðjóni Samúelssyni og var annað húsið sem reist var á lóðinni á eftir gamla Landspítalanum. Á meðfylgjandi mynd má sjá starfsfólk deildarinnar á tröppum byggingarinnar.
Fjölþætt hlutverk og starfssvið
Rannsóknarstofan hefur frá upphafi haft fjölþætt hlutverk og starfssvið við rannsóknir vefjasýna, krufningar og sýklarannsóknir. Á síðari hluta áttunda áratugar síðustu aldar voru sýklarannsóknir færðar undan Rannsóknarstofu Háskólans og stofnuð sérstök sýklafræðideild við spítalann.
Greining og sérrannsóknir
Starfsemi meinafræðideildar nú er fjölbreytt. Deildin sér um greiningu frumusýna og vefjasýna sem send eru til rannsóknar. Sem dæmi má nefna greiningu á krabbameinum og undirflokkun þeirra. Margvíslegar sérrannsóknir er unnt að framkvæma á vefjasýnum í þeim tilgangi að meta sem nákvæmast hina ýmsu sjúkdóma, mögulega svörun við meðferð og meta horfur sjúklinga.
Allar krufningar í landinu
Meinafræðideildin annast allar krufningar sem gerðar eru á landinu, bæði réttarkrufningar, sem unnar eru fyrir lögregluyfirvöld en einnig allar aðrar krufningar sem nauðsynlegt er að framkvæma, þ.m.t. barna- og fósturkrufningar.
Skyldleikarannsóknir
Frumulíffræðieining meinafræðideildar sér um skyldleikarannsóknir svo sem barnsfaðernismál en einnig stökkbreytigreiningar á erfðaefni sem skiptir sífellt meira máli í tengslum við nákvæmni greininga vefjasýna, einkum æxlissýna, og áætlaðri svörun við sértækri lyfjameðferð.
Lífsýni í 100 ár
Yfirgripsmikið lífsýnasafn tilheyrir meinafræðideildinni og eru vefjasýni tiltæk aftur til fyrri hlutar síðustu aldar.
Mikilvægt kennsluhlutverk
Þróttmikið vísindastarf hefur farið fram og fer fram á deildinni. Einnig hefur starfsfólk mikilvægt hlutverk í kennslu, meðal annars læknanema, lífeindafræðinema, tannlæknanema, sjúkraþjálfaranema og fleiri, sem og MS- og doktorsnema.