Blóðbankinn opnar nýjan leitarvef fyrir blóðgjafa á 64 ára afmæli sínu þriðjudaginn 14. nóvember 2017. Þar munu gjafar geta flett upp ýmsu varðandi heilsufar og fengið upplýsingar um hvort þeir megi gefa blóð.
Slóðin á síðuna er www.blodgjafi.is.
Traust og örugg blóðgjöf byggir á heilbrigðum blóðgjöfum. Ýmislegt getur valdið því að vísa verði blóðgjafa frá blóðgjöf tímabundið eða varanlega. Frávísanir miða bæði að því að vernda blóðgjafa og blóðþega. Tímabundin frávísun er til dæmis vegna kvefs, frunsu eða annarra einkenna sem ganga til baka. Varanleg frávísun er til dæmis vegna ýmissa sjúkdóma eins og hjarta- og æðasjúkdóma, lungnasjúkdóma og sykursýki.
Að meðaltali er einum til tveimur blóðgjöfum vísað frá daglega í Blóðbankanum vegna heilsufarsástands sem kemur í veg fyrir blóðgjöf. Vonast er til að vefsíðan muni í framtíðinni auðvelda blóðgjöfum að nálgast upplýsingar um reglur Blóðbankans varðandi heilsufar og frávísanir áður en þeir gera sér óþarfa ferð í Blóðbankann. Vefurinn eykur þannig þjónustu við blóðgjafa en er þó ekki síður vinnutæki hjúkrunarfræðinga blóðsöfnunar þar sem á vefsíðunni verða reglur Blóðbankans varðandi heilsufar og blóðgjöf.
Hafa þarf í huga að þessi vefsíða fjallar enn um sinn ekki um lyf eða ferðalög. Starfsfólk blóðsöfnunar mun áfram veita upplýsingar um hvort lyf eða ferðalög komi í veg fyrir blóðgjöf.