Kæra samstarfsfólk!
I
Á mánudag skilaði óháð íslensk sérfræðinganefnd undir formennsku Páls Hreinssonar, dómara við EFTA-dómstólinn, skýrslu sinni um Plastbarkamálið svo kallaða. Málið er að meginþunga sænskt og á ábyrgð þeirra aðila sem komu að ákvörðunum sem leiddu til þess að Paolo Macchiarini gat stundað sína ósiðlegu og ólöglegu starfsemi þar. Þegar liggja fyrir umfangsmiklar skýrslur óháðra aðila sem Karolinska Institutet annars vegar og Karolinska Sjukhuset hins vegar létu gera um málið og staðfesta þetta.
Í ljósi þess að þetta alvarlega mál teygði anga sína til Íslands var það mat okkar rektors HÍ að nauðsynlegt væri að rýna þann þátt málsins sérstaklega. Skipuðum við því óháða nefnd sem mat m.a. niðurstöður sænsku rannsóknanna. Alvarlegasta ályktun nefndarinnar hlýtur að vera sú að málið kunni að varða 2. grein mannréttindasáttmála Evrópu. Sú grein fjallar um rétt okkar allra til verndunar lífs. Landspítali er stofnun þar sem sjúklingurinn er í öndvegi. Við helgum okkur varðveislu lífs svo það er okkur öllum sem hér störfum gríðarlegt áfall að dragast inn í mál, með hvaða hætti sem það kann að hafa verið, sem hefur einhvern snertiflöt við ályktun um að sú helgi hafi verið rofin.
II
Það hljóta allir að skilja að við á Landspítala, Háskóli Íslands og þeir aðilar sem hafa aðkomu að málinu þurfum andrými til að rýna einstaka þætti þessarar efnismiklu skýrslu nákvæmlega. Þeir lærdómar sem við drögum af málinu verða að byggja á vandaðri yfirlegu og viðbrögð okkar verða að vera ígrunduð. Við munum taka þann tíma sem þarf í þessa vinnu og ljóst er að framundan eru verkefni fyrir okkur öll. Ég vil hvetja ykkur til að kynna ykkur skýrsluna vel, þó að þarna sé á ferðinni þungur lestur. Aðgengileg leið að því verkefni er að skoða fyrst skjal þar sem meginniðurstöður nefndarinnar úr 8 kafla eru dregnar saman og eftir atvikum fara á dýptina í skýrslunni sjálfri.
Niðurstöðum nefndarinnar, tillögum og ábendingum tökum við á Landspítala af mikilli alvöru og leitum leiða til að mæta þeim eftir því sem unnt er. Af því sem þegar hefur verið ákveðið get ég upplýst að mál er varða vísindasiðanefnd verða tekin upp við stjórnvöld, hlutum málsins verður vísað til siðfræðinefndar Landspítala og við höfum til skoðunar tillögu nefndarinnar um það með hvaða hætti unnt er að koma ekkju sjúklings til aðstoðar. Þá liggur fyrir að efni skýrslunnar kallar á samskipti við bæði Karolinska sjúkrahúsið og Karolinsku stofnunina og hef ég þegar óskað eftir fundi með forstjóra Karolinska sjúkrahússins til að ræða samskipti stofnananna. Eins og nærri má geta er þetta langt frá þvi að vera tæmandi listi, við munum ígrunda málið áfram og ég geri ráð fyrir ábendingum frá ykkur.
III
Að öllu þessu sögðu verður að draga fram það sem mestu máli skiptir. Það var ekki þáttur Paolo Macchiarini eða Karolinska, hvað þá hlutur Landspítala, HÍ eða íslenskra meðferðaraðila. Það mikilvægasta eru örlög Andemariam Taeklesebet Beyne. Ungur fjölskyldufaðir og námsmaður, sjúklingur okkar og skjólstæðingur Landspítala, tók í örvæntingu sinni þátt í ólögmætri tilraun með skelfilegum afleiðingum. Vissulega fékk hann góða þjónustu hjá okkur fyrir og eftir hina afdrifaríku skurðaðgerð í Svíþjóð. Engu að síður brást svo margt sem ekki mátti bregðast og af virðingu við Andemariam og fjölskyldu hans ber okkur öllum skylda til að læra af þessu hörmulega máli.
Það munum við gera.