Arnar Geirsson hjartaskurðlæknir hefur verið ráðinn yfirlæknir hjartaskurðdeildar Yale-New Haven Hospital, háskólasjúkrahúss Yale í New Haven í Connecticut í Bandaríkjunum. Hann vann sem sérfræðingur í hjartaskurðlækningum á Yale háskólaspítalanum frá 2007 til 2012 og á Landspítala frá 2012 þar til hann fór í leyfi sumarið 2016 til að starfa sem sérfræðingur á Yale.
Yale-New Haven Hospital er með stærstu sjúkrahúsum Bandaríkjanna með 1.540 sjúkrarúm. Það er jafnframt aðalsjúkrahús Yale-New Haven Health System, heilbrigðisþjónustu sem samanstendur af fimm sjúkrahúsum með yfir 7.500 heilbrigðisstarfsmenn og samtals 2.560 sjúkrarúm.
Á hjartaskurðdeild Yale starfa 10 sérfræðingar sem gera um 1.500 hjartaskurðaðgerðir árlega. Deildin sérhæfir sig í flóknum hjartaaðgerðum, lokuaðgerðum (bæði opnum og innanæðaðgerðum), ósæðaraðgerðum, hjartaskiptum og barnahjartaskurðlækningum. Læknaskóli Yale er jafnframt einn af fremstu læknaskólum Bandaríkjanna og hafa allmargir Íslendingar stundað þar sérfræðinám.