Kæra samstarfsfólk!
Dagur vinnuverndar Landspítala er haldinn í fyrsta skipti í dag, 3. nóvember, en markmið dagsins er að vekja athygli á vinnuvernd og hvetja starfsmenn og stjórnendur til að huga að öryggi og líðan í vinnu. Af þessu tilefni voru tveimur aðilum veittar viðurkenningar fyrir framúrskarandi vinnuverndarstarf.
Annars vegar fékk öryggisteymi Kristínar Jónsdóttur á rannsóknarsviði viðurkenningu en teymið er með vel skilgreint verklag fyrir vinnuverndarstarf skv. ISOstaðli. Á rannsóknarsviði er reglubundið unnið áhættumat á störfum, atvik skráð og markvisst unnið að umbótum út frá því.
Hins vegar hlaut viðurkenningu Ragna Björg Ársælsdóttir hjúkrunarfræðingur,sem hefur sýnt mikinn áhuga og frumkvæði í starfi auk þess að vera mikil fyrirmynd.
Til hamingju báðar!
Landspítali var í sumar tilnefndur til umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs, fyrstur norrænna spítala. Í vikunni fór svo verðlaunaafhending fram á þingi ráðsins í Helsinki. Landspítali bar ekki sigur úr býtum en við getum verið stolt af því að hafa verið tilnefnd til verðlaunanna. Við fengum tækifæri til að kynna umfangsmikla umhverfisstefnu okkar og sérstaklega áherslur um vistvænar samgöngur og leiðir til að draga úr matarsóun. Til hamingju öll!.
Það er ánægjulegt að segja frá því að stjórnendamat, sem lagt var fyrir alla starfsmenn spítalans á dögunum, bendir til þess að stjórnun sé almennt að batna á spítalanum. Við höfum notast við sama spurningalista lítið breyttan frá árinu 2012 og er mælingin sem gerð var nú í september sú besta hingað til. Þetta er mikilvægt í ljósi þess að ein af undirstöðum í stefnu spítalans er stjórnun og sérstaklega ánægjulegt í ljósi þess að undanfarin misseri höfum við lagt áherslu á aukinn stuðning við stjórnendur og eðlilega endurnýjun í stjórnendahópnum.
Fyrir um ári skipuðum við rektor Háskóla Íslands óháða nefnd utanaðkomandi sérfræðinga sem rannsaka átti aðkomu stofnananna og starfsmanna þeirra að hinu svokallaða Plastbarkamáli. Nefndin var skipuð í kjölfar niðurstöðu tveggja viðamikilla rannsókna sem óháðir utanaðkomandi sérfræðingar unnu að beiðni Karolinsku stofnunarinnar annars vegar og Karolinska sjúkrahússins hins vegar. Nefndin hefur nú lokið störfum og mun kynna niðurstöður sínar á opnum fundi í Norræna húsinu mánudaginn 6. nóvember.
Hafið það gott um helgina, hvort heldur þið standið vaktina eða hlaðið batteríin!
Páll Matthíasson