Þriðji vinnufundur í verkefninu „Takmörkuð og óframkvæmd hjúkrun: Alþjóðlegt og fjölþætt vandamál“, sem er fjölþjóðlegt Evrópuverkefni fjármagnað með svokölluðum COST styrk Evrópusambandsins (European Cooperation in Science and Technology), var haldinn í Prag, af Háskóla Ostrava, dagana 10.-11. október 2017. Á vinnufundinum var haldið áfram að rýna í og greina hvað takmörkuð og óframkvæmd hjúkrun felur í sér og hvernig hægt er að lágmarka hana.
Ísland er þátttakandi í verkefninu í gegnum hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands og Landspítala. Aðalfulltrúar Íslands eru dr. Helga Bragadóttir, prófessor og forstöðumaður fræðasviðs í hjúkrunarstjórnun, og dr. Ingibjörg Hjaltadóttir, dósent og sérfræðingur í öldrunarhjúkrun, báðar við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands og Landspítala. Varamenn þeirra eru Elfa Þöll Grétarsdóttir hjúkrunarfræðingur MSc, aðjúnkt, sérfræðingur í öldrunarhjúkrun, Háskóla Íslands og Landspítala og Sigrún Gunnarsdóttir hjúkrunarfræðingur, dósent Háskóla Íslands.
Fyrri daginn var farið í að kynna og ræða stöðu verkefna þeirra fjögurra vinnuhópa sem starfa innan verkefnisins, hvaða viðburðum hver hópur hafði staðið að og tekið þátt í svo sem námskeiðum og kynningum. Alls tóku 23 fulltrúar þátt í þeirri umræðu.
Seinni daginn tóku þátt 50 fulltrúar frá 26 löndum undir forystu dr. Evridiki Papastavrou og dr. Karina Marcus sem leiða verkefnið. Vinnuhóparnir fjórir hittust og unnu hver að sínu verkefni sem eru: 1) hugtakageining, skipulagsmál og aðferðafræði (vinnuhópur 1); gagnreyndar íhlutanir og aðfeðir (vinnuhópur 2); siðferðisleg álitamál við takmarkaða og óframkvæmda hjúkrun (vinnuhópur 3); menntunarmál og þjálfun (vinnuhópur 4).