Fulltrúar Landspítala fengu þann heiður að kynna spítalann fyrir ríflega 500 nemendum í 10. bekk grunnskóla.
Þetta er í fyrsta sinn sem grunnskólakynning Landspítala er haldin með þessu móti. Tilgangur starfskynninga er að kynna Landspítala og mannauðinn sem þar starfar fyrir grunnskólanemendum.
Kynningarnar voru haldnar í húsnæði Háskóla Íslands í Stakkahlíð þar sem Páll forstjóri og Ásta framkvæmdastjóri mannauðssviðs buðu hópinn velkominn og frumsýnt var myndband um nám og störf ýmissa starfsstétta á Landspítala. Í kjölfarið sátu fulltrúar starfsstéttanna fyrir svörum þar sem líflegar umræður spunnust.
Kjörís gaf Landspítala 500 íspinna sem nemendur gæddu sér á, áður en þeir spreyttu sig í Spurt og svarað, spurningakeppni Landspítala.
Landspítali telur það vera hagsmunamál okkar allra að efla vitund á heilbrigðisstéttum og sýna alla þá fjölbreytni sem býr í störfum í heilbrigðisþjónustunni. Það er ekki í ráð nema í tíma sé tekið, í hópnum eru framtíðarstarfsmenn spítalans og þann hóp ber að rækta!
Fleiri myndir frá kynningunni: