Einar Stefánsson, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands og yfirlæknir á augndeild Landspítala, hefur verið sæmdur svokallaðri Peter Watson medalíu fyrir framúrskarandi vísindaframlag á sviði rannsókna í augnlækningum. Hann tók við verðlaununum við St. John´s College í Cambridge-háskóla á Englandi en margir af fremstu vísindamönnum heims á sviði augnlækninga hafa hlotið þessi verðlaun.
Einar hefur drjúgan hluta starfsævinnar unnið að rannsóknum á lífeðlisfræði augna og augnsjúkdóma og er mjög kunnur á alþjóðavettvangi fyrir þau störf sín. Hann er meðhöfundur að meira en 200 greinum í virtum ritrýndum vísindatímaritum og höfundur um 400 ritverka og úrdrátta um augnlækningafræði.