Kæra samstarfsfólk!
Það er kunnara en frá þurfi að segja að skortur á heilbrigðsstarfsfólki er alvarlegt vandamál hér á landi eins og víðast hvar annars staðar. Enda þótt við á Landspítala séum um þessar mundir þokkalega sett hvað mönnun lækna varðar þá eru blikur á lofti varðandi ýmsar aðrar stéttir. Það á m.a. við um sjúkraliða, geislafræðinga og lífeindafræðinga. Einna alvarlegastur er þó skortur á hjúkrunarfræðingum.
Í vikunni skilaði Ríksendurskoðun Alþingi skýrslunni "Hjúkrunarfræðingar - Mönnun, menntun og starfsumhverfi". Í skýrslunni er rakin staða sem við á Landspítala gjörþekkjum eins og aðrir í heilbrigðisþjónustunni. Í niðurstöðum sínum leggur Ríkisendurskoðun m.a. áherslu á alvarlegan skort á hjúkrunarfræðingum til starfa í íslensku heilbrigðiskerfi, mikilvægi þess að kerfið sé samkeppnishæft um þessa eftirsóttu starfskrafta og að mannaflaspá sé gerð og henni fylgt eftir. Áætlað er að um 570 hjúkrunarfræðinga vanti til starfa á Íslandi og eðli máls samkvæmt förum við á Landspítala ekki varhluta af því. Á degi hverjum hefur þessi staða áhrif á starfsemi spítalans, m.a. með frestun aðgerða og meðferða og lokun rúma. Ég hef áður á þessum vettvangi ítrekað að vel menntaðir hjúkrunarfræðingar eru hryggjarstykki í rekstri háskólasjúkrahúss, þar sem flóknustu meðferðirnar eru veittar og veikustu sjúklingarnir liggja. Sérhæfðum störfum hjúkrunarfræðinga verður ekki sinnt af öðrum en þeim og nú þegar er hlutfall þeirra í mannafla Landspítala of lítið. Afar brýnt er að brugðist verði við þessari alvarlegu stöðu og því hefur framkvæmdastjórn Landspítala samþykkt eftirfarandi ályktun:
Landspítali telur nauðsynlegt að fá 600 m.kr. í fjárlögum 2018 til að bæta kjör og vinnutíma hjúkrunarfræðinga.
Landspítali fagnar skýrslu Ríkisendurskoðunar og telur hana sýna glögglega fram á þann mikla skort á hjúkrunarfræðingum sem framundan er, ef ekki verður brugðist við hratt. Landspítali telur nauðsynlegt að fjölga hjúkrunarfræðingum við störf á heilbrigðisstofnunum landsins og að fjölga námsplássum í hjúkrunarfræði við íslenska háskóla.
Landspítali bendir á að í fjármálaáætlun fráfarandi ríkisstjórnar var gert ráð fyrir 3,8 milljörðum króna á næstu 5 árum til að fjölga heilbrigðisstarfsfólki á Landspítala (bls. 68). Hins vegar voru það mikil vonbrigði að í framlögðu fjárlagafrumvarpi ársins 2018 var aðeins gert ráð fyrir 60 milljónum króna til þessa verkefnis.
Landspítali telur þurfa að tífalda þá upphæð, þannig að hún nemi að lágmarki 600 milljónum króna á árinu 2018. Ef sú upphæð fæst, mun Landspítali nýta hana til að bæta starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga almennt og til að minnka vaktabyrði og bæta grunnkjör þeirra hjúkrunarfræðinga sem starfa í vaktavinnu.
Hafið það gott um helgina, hvort heldur þið standið vaktina eða hlaðið batteríin!
Páll Matthíasson