Líknarmeðferð er veitt í þeim tilgangi að bæta líðan og lífsgæði sjúklinga sem eru með lífsógnandi sjúkdóma, til dæmis krabbamein, hjarta-, lungna-, tauga-, og nýrnasjúkdóma. Markmiðið er að fyrirbyggja og meðhöndla einkenni og vanlíðan vegna sjúkdóma og sjúkdómsmeðferðar eins snemma og auðið er. Það á einnig við um andlegar, sálrænar og félagslegar afleiðingar veikinda.
Líknarmeðferð er hægt að veita frá greiningu sjúkdóms og samhliða annarri meðferð. Almenn líknarmeðferð er hluti af almennri heilbrigðisþjónustu. Allir heilbrigðisstarfsmenn eiga að hafa grunnþekkingu á líknarmeðferð. Með sérhæfðri líknarmeðferð er hins vegar lögð áhersla á að sinna sjúklingum með versnandi sjúkdóma, erfið, fjölþætt og flókin einkenni.
Heilbrigðisstarfsmenn sérhæfðrar líknarmeðferðar hjá Landspítala sinna sjúklingum á líknardeild í Kópavogi, í heimahlynningu og í líknarráðgjafateymi sem veitir þjónustu víða á spítalanum.
Viðmælandi okkar að þessu sinni er Arna Dögg Einarsdóttir, sérfræðilæknir hjá líknardeild Landspítala.